Fleiri ferðamenn í Mývatnssveit en á Þingvöllum á sumrin

Ferðamenn njóta veðurblíðunnar á ferð um landið á miðjum vetri
Ferðamenn njóta veðurblíðunnar á ferð um landið á miðjum vetri Rax / Ragnar Axelsson

Fleiri ferðamenn leggja leið sína til Mývatnssveitar en á Þingvelli á sumardögum en á veturna halda þeir sig nær höfuðborgarsvæðinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt greiningardeildar Arion banka á gögnum um ferðamenn á Íslandi. 

Á heimasíðu Arion banka segir að mikill munur sé á árstíðarsveiflunni eftir einstaka ferðamannastöðum. Til að mynda virðist sem að á sumardögum leggi fleiri ferðamenn leið sína til Mývatnssveitar en á Þingvelli, en á hvorum stað eru 3-4% allra ferðamanna sem staddir er á landinu.

Á veturna sé hlutfallið hins vegar 4% á Þingvöllum, en um 1% á Mývatni. Svo virðist að því nær Keflavíkurflugvelli sem staðurinn er, því betur haldi hann vinsældum yfir vetrartímann. 

Samkvæmt gögnum frá Símanum um fjölda símtækja á reiki kemur í ljós að rúmlega 20% ferðamanna dvelji á hverjum degi í miðbænum. Miðað við fjölda ferðamanna, dvalartíma og áætlaða stærð miðbæjararins af korti RSV séu á milli 3-5 þúsund ferðamenn á hvern ferkílómeter í miðbænum á hverri nóttu í ár. Tekið er fram að þó að gögnin veiti innsýn séu þau takmörkunum háð enda nái þau yfir stutt tímabil og séu bara frá einu símafyrirtæki.

Þá er drepið á fjölda gistinátta. Greint hefur verið frá því á mbl.is að í maímánuði hefði gistinóttum er­lendra ferðamanna í höfuðborginni fækkað um 2.329 milli ára. Í greiningu Arion banka kemur fram að svo virðist sem nýjustu tölur um gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum beri með sér að toppnum í vextinum sé náð.

Telja greinendur að rekja megi framvinduna til þeirrar þróunar sem hófst á síðasta ári þegar dvalartími ferðamanna tók að styttast þannig að gistinóttum fjölgaði hægar en ferðamönnum. Það kunni einnig að vera að sterkt gengi krónunnar sé að leiða til þess að ferðamenn séu í auknum mæli að kjósa ódýrari gistingu, t.d. í tjöldum, heimahúsum, í húsbílum eða á gistiheimilum.

Þrátt fyrir að hægt hafi á fjölgun gistinátta eru nýtingartölur hins vegar almennt mjög sterkar og í flestum landshlutum batnaði nýting hótelherbergja milli ára í maí. Helsta undantekningin var þó höfuðborgarsvæðið þar sem nýtingin fór úr 79,4% niður í 70,6%. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir