SoundCloud á barmi gjaldþrots

Tónleikagestir. Mynd úr safni.
Tónleikagestir. Mynd úr safni. AFP

Tónlistarveitan SoundCloud rambar á barmi gjaldþrots. Á vef Business Insider kemur fram að fyrirtækið sé talið eiga minna en 50 daga eftir. Ekki er nema rúm vika síðan 170 starfsmönnum var sagt upp en áður störfuðu um 420 manns hjá fyrirtækinu. Talsmenn SoundCloud neita því þó staðfastlega og segja að fyrirtækið sé fjármagnað út árið þótt þeir viðurkenni að fyrirtækið sé í viðræðum við fjárfesta um frekari fjárframlög.

Rekstur tónlistarveitunnar hefur verið þungur síðustu ár. Árið 2015 tapaði fyrirtækið um 52 milljónum dala eða 5,4 milljörðum króna. Auk þess að segja upp starfsfólki hefur tveimur af fjórum skrifstofum fyrirtækisins, í London og San Francisco, verið lokað og sagt að upplausnarástand ríki í þeim sem eftir standa, í New York og höfuðstöðvunum í Berlín.

Um 175 milljónir manna nýta sér þjónustu SoundCloud í hverjum mánuði. Það segir þó ekki alla söguna. Stærstur hluti efnisins á SoundCloud kemur beint frá notendum sem hlaða efni sínu inn á sarp fyrirtækisins þar sem aðrir geta séð það sér að kostnaðarlausu. Þannig má nálgast fjöldann allan af hlaðvörpum; efni frá tónlistarmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref, plötusnúðum og fleirum sem deila efni sínu frítt.

Erfiðlega hefur hins vegar gengið að fjölga áskrifendum þjónustuveitunnar SoundCloud Go sem býður fólki upp á að hlusta ótakmarkað á tónlist gegn vægu mánaðargjaldi. Samkeppnin er enda hörð við Spotify, Apple Music og fleiri. Þótt mánaðargjaldið hjá SoundCloud sé aðeins um fimm evrur – um helmingurinn af verði keppinautanna – er úrvalið einnig umtalsvert minna en hjá hinum fyrirtækjunum.

Raunar er miðlunarbransinn harður heimur. Risinn á markaðnum, hið sænska Spotify, hefur til að mynda aldrei skilað hagnaði og það þrátt fyrir að um 140 milljónir manna nýti sér þjónustuna, þar af um 50 milljónir áskrifenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK