„Næstum því skammarlegt að vera Bandaríkjamaður“

Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan, er ekki alls sáttur með …
Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan, er ekki alls sáttur með yfirvöld í Bandaríkjunum. AFP

Jamie Dimon, forstjóri bandaríska bankans JP Morgan gagnrýndi stjórnvöld í Bandaríkjunum harðlega á uppgjörsfundi bankans í gær, en þrátt fyrir methagnað hjá bankanum segir hann að stjórnvöld virðist ekki hugsa um lítinn hagvöxt og stefnumótun sem gagnist hinum almenna íbúa landsins.

„Það er næstum því skammarlegt að vera Bandaríkjamaður og ferðast um heiminn og hlusta á það sem Bandaríkjamenn þurfa að glíma við í þessu landi,“ sagði Dimon við blaðamenn á fundinum, að því er sagt er frá í Guardian.

Bankinn skilaði 7,03 milljarða dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi, en það þýðir að á síðustu 12 mánuðum hefur bankinn skilað 26,5 milljarða dala hagnaði, meira en nokkur bandarískur banki hefur gert hingað til.

Þrátt fyrir þennan góða árangur virðist Dimon ekki vera sáttur með stöðu mála heima fyrir og sagði við blaðamenn að þeir væru allt of mikið að horfa í skammtímasveiflur á meðan þeir þyrftu að einbeita sér að því að skrifa um stefnumótun yfirvalda í landinu sem væri farin að halda aftur af hagsmunum hins almenna borgara.

Dimon hafnaði í lok síðasta árs boði Donald Trumps Bandaríkjaforseta að taka við embætti fjármálaráðherra, en síðan þá hefur Dimon verið opinskár um pólitísk málefni og skaut hann nokkrum skotum meðal annars á ríkisstjórn Trump í bréfi til hluthafa í apríl á þessu ári.

Þrátt fyrir að Dimon hafi verið talsmaður þess að fækka reglugerðum hefur hann einnig sagt að sumar reglugerðir séu þarfar fyrir heildarhagsmuni samfélagsins. Meðal þeirra reglugerðir um hreint neysluvatn og að minni mengun. Afstaða Trump gegn Parísarsáttmálanum nýlega vakti til dæmis mikla athygli, en öll önnur stórríki heimsins hafa skuldbundið sig til að ná markmiðum samkomulagsins.

Dimon sagði á fundinum að yfirvöld þyrftu að fara að horfa til stórtækra innviðauppbygginga sem myndu gagnast öllum Bandaríkjamönnum auk þess sem þörf væri á að bæta menntun í landinu. Þá þyrfti að bæta skattaumhverfi fyrirtækja í  landinu. Sagði hann að nýlega hefði hann ferðast til landa eins og Ísrael, Írlands og Frakklands þar sem horft væri til þessara atriða, en svo væri ekki í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK