Býr til poka úr endurnýttu fánaefni

Til eru fimm tegundir af pokum, Innkaupapoki, Hliðarpoki, Tote poki, ...
Til eru fimm tegundir af pokum, Innkaupapoki, Hliðarpoki, Tote poki, Sundpoki og Flöskusöfnunarpoki. Af Karolina Fund

Hafin er söfnun á Karolina Fund til styrktar verkefnisins Fánapoka sem eru fjölnota pokar búnir til úr afgangs fánaefni. Fatahönnuðurinn Sandra Borg Bjarnadóttir stendur að Fánapokum. Hún segir vinsældir pokanna hafa vaxið og nú sé kominn tími til þess að endurnýja tæki og stefnir hún m.a. að því að kaupa nýja saumavél fyrir verkefnið.

Í samtali við mbl.is segir Sandra að verkefnið hafi hafist árið 2012. „Ég var á Ísafirði og fór í heimsókn í Fánasmiðjuna. Ég hafði aldrei komið þarna áður og sá hrúgu af fánum á gólfinu og spurði út í þá. Þá kom í ljós að þetta voru fánar með prentvillum til þess að henda. Mér fannst vont að horfa á þetta efni fara til spillis og spurði hvort það væri ekki góð hugmynd að fá brot af því og sjá hvað væri hægt að gera við það.“

Að sögn Söndru leist starfsfólki Fánasmiðjunnar vel á það en fánarnir voru ónotaðir og úr nýju efni en með ýmis konar prentgöllum eins og vitlausum litablæ. „Stundum sést voða lítið á gölluðu fánunum,“ segir Sandra sem hófst í kjölfarið handa að búa til poka úr fánunum.

„Þetta fór hægt af stað en eftir að ég gerði Flöskusöfnunarpokann varð meira að gera. Þeir eru langvinsælastir,“ segir Sandra.

Sandra safnar fyrir nýrri saumavél til þess að gera sterkari ...
Sandra safnar fyrir nýrri saumavél til þess að gera sterkari poka. Af Karolina Fund

Safnar fyrir nýrri saumavél

Hún segir það að nýta fánaefnið í fjölnota poka sé eitt það besta sem hægt sé að gera fyrir umhverfið. Bendir hún á að plastmengun í heiminum er mikið vandamál.

Söfnunin á Karolina Fund er aðallega til þess að kaupa nýja „Overlock“ saumavél til þess að sauma  pokana sem mun m.a. gera þá sterkari og með betri frágang. Markmiðið er að safna 3.000 evrum og á Karolina Fund er hægt að styrkja verkefnið og fá poka í staðinn. Þá er líka hægt að kaupa poka á fanapokar.is.

Til eru fimm tegundir af pokum, Innkaupapoki, Hliðarpoki, Tote poki, Sundpoki og Flöskusöfnunarpoki. Eins og fyrr segir er Flöskusöfnunarpokinn vinsælastur.

Hér má sjá söfnunina á Karolina Fund.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir