Kínverska hagkerfið sækir í sig veðrið

Frá Sjanghæ í Kína.
Frá Sjanghæ í Kína. AFP

Hagvöxtur í Kína var 6,9% á árlegum grundvelli milli apríl og júní samkvæmt nýjum opinberum tölum. Það er jafnmikill vöxtur og á fyrsta ársfjórðungi og nokkuð meiri en spár gerðu ráð fyrir.

Yfirvöld í Kína hafa reynt að að draga úr þenslu á fasteignamarkaði með því að herða skilyrði fyrir lánveitingum. Þrátt fyrir þessar aðgerðir óx fjárfesting á fasteignamarkaði um 8,5% fyrstu sex mánuði ársins sem er aukning frá sama tímabili á síðasta ári.

Búist var við að þær hægðu á hagvexti en hann fór fram úr 6,5% markmiði yfirvalda fyrir árið 2017. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins greinir frá því að sumir greinendur meti það svo að hert skilyrði fyrir lánveitingum hafi ekki haft tilætluð áhrif eins og margir bjuggust við. 

Á síðasta ári var minnsti hagvöxtur í Kína í 26 ár en nú sýna tölur kínverska hagkerfið sækja í sig veðrið á nýjan leik. Iðnaðarframleiðsla í júní óx um 7,6% sem er yfir spám um 6,5% vöxt. Þá er vöxtur í innflutningi og útflutningi einnig yfir væntingum. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir