Hinsegin bjór í útrás

Sturlaugur og Árni Long, bruggmeistari hjá Borg ásamt Evu Maríu ...
Sturlaugur og Árni Long, bruggmeistari hjá Borg ásamt Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange og Gunnlaugi Braga frá Hinsegin dögum. Aðsend mynd

Hinsegin bjórinn Ástríkur sem bruggaður er af Borg brugghúsi hefur síðustu tvö árin verið seldur til Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur Hollands og nú síðast til Færeyja. Forsvarsmenn gleðigöngunnar í Þórshöfn höfðu samband við Borg sem tók þátt í hátíðarhöldunum auk þess sem bjórinn var seldur í miðbæ Þórshafnar fyrir og yfir hátíðina í fyrsta skipti.

Bruggmeistari Borgar segir að það hafi aldrei verið ætlunin að koma Ástríki í útrás heldur aðeins að sýna samstöðu og taka þátt í gleðinni en mesta salan á Ástríki til útlanda var til Svíþjóðar, eða tæpar 4.000 flöskur. Borg Brugghús sendi fyrst frá sér hinsegin bjórinn Ástrík fyrir gleðigönguna í Reykjavík árið 2013 og hefur bjórinn verið bruggaður árlega síðan. 

Fyllist alltaf stolti

Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg segir í samtali við mbl.is að hann hafi fundið fyrir miklum áhuga og talsvert af fyrirspurnum erlendis frá vegna Ástríks. „Það var alls ekki hugsunin þegar við byrjuðum með hann. Þá vorum við bara og erum enn að sýna samstöðu og taka þátt í gleðinni,“ segir Sturlaugur.

„Við höfum fengið talvert af fyrirspurnum erlendis frá vegna Ástríks í gegnum tíðina og eitthvað magn farið út undanfarin tvö ár.  Þetta hefur farið vaxandi og fóru út einhver bretti fyrir pride hátíðina í Stokkhólmi fyrr í sumar, auk þess sem hann fór sem dæmi til Noregs, Hollands, Danmerkur og Færeyja í ár, þar sem hann var einmitt þátttakandi í gleðigöngunni.  Ástríkur er vara sem er alltaf gaman að kynna og ræða um erlendis. Það fyllir mann alltaf stolti að segja frá því hversu framarlega við Íslendingar stöndum í jafnréttismálum miðað við flestar aðrar þjóðir,“ segir Sturlaugur.

Auðdrekkanlegur og ferskur en líka margþættur og áhugaverður

Í ár er Ástríkur í belgískum Pale Ale bjórstíl sem Sturlaugur telur að muni sóma sér vel á hátíðinni. „Hann er auðdrekkanlegur og ferskur en á sama tíma margþættur og áhugaverður.  Þar spilar sérstakt belgískt ger lykilhlutverk og færir honum frúttí og kryddaða tóna sem blandast við léttan karakter frá sérvöldum amerískum humlum.  Þá má í lykt og bragði greina ýmsa ávexti á borð við ferskjur, apríkósur og ástaraldin svo eitthvað sé nefnt.  Við erum annars sérstaklega stolt af því að vera þátttakendur í þessar mikilvægu hátíð og hvetjum alla til að láta sig mannréttindi Hinsegin fólks, og annarra, varða.“ segir Sturlaugur og  bætir við að nóg sé til af Ástríki fyrir helgina en gleðigangan fer fram á morgun.

„Stjórn Hinsegin daga fagnar því að fá Ástrík í hóp stoltra styrktaraðila hátíðarinnar. Ástríkur á einstaklega vel við okkur þar sem hátíðin okkar er drifin áfram af ástríðu sjálfboðaliða okkar fyrir mannréttindum hinsegin fólks. Það er ómetanlegt að fá fyrirtæki eins og Borg Brugghús til liðs við okkur þar sem rekstrargrundvöllurinn hátíðarinnar byggir á stuðningi velviljaðra fyrirtækja, einstaklinga og Reykjavíkurborgar,“ er haft eftir Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange, formanni Hinsegin daga í tilkynningu frá Ölgerðinni.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir