Fengu heimild til greiðslustöðvunar

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðsdómur Reykjaness veitti í dag stjórn Sameinaðs Silicons ehf. heimild til greiðslustöðvunar til þess að freista megi þess að ná bindandi nauðasamningum við lánardrottna. Ástæðan er erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík vegna síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni.

„Vegna þessara rekstrarerfiðleika var fyrirsjáanlegt að félagið myndi að óbreyttu eiga erfitt með að standa í skilum við lánardrottna og yfirvofandi eru aðgerðir einstakra kröfuhafa ef ekki verður brugðist við án tafar. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV eykur enn á þessa óvissu en samningar um uppgjör þeirra skulda sem þar var tekist á um hafa ekki borið árangur,“ segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Enn fremur segir að hluthafar hafi frá því verksmiðjan tók til starfa lagt félaginu til viðbótarhlutafé til að fjármagna reksturinn og endurbætur á búnaði og almennri aðstöðu fyrir starfsfólk. „Ljóst er að enn frekari endurbætur á búnaði og aðstöðu eru nauðsynlegar til að verksmiðjan geti framleitt afurðir í því magni og af þeim gæðum sem áætlað var í upphafi og án þeirrar lyktarmengunar sem íbúar í nágrenninu hafa kvartað undan.“

Mat stjórnar félagsins sé að með greiðslustöðvun megi skapa ráðrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar séu til að koma rekstri verksmiðjunnar í eðlilegt horf. „Markaðshorfur fyrir afurðir verksmiðjunnar eru góðar og verð hefur farið hækkandi. Framtíðarhorfur eru því vænlegar að því tilskyldu að unnt verði að afla aukins fjármagns, semja við lánardrottna og endurskipuleggja reksturinn. Nauðsynlegt var að fá heimild til greiðslustöðvunar til að freista þess að rétta við rekstur félagsins og ná samningum og samstarfi við lánardrottna með það að markmiði að ná bindandi nauðasamningum.“

Þá segir að stjórn félagsins taki alvarlega þá ábyrgð sem fylgi því að reka stórt fyrirtæki með mikinn fjölda starfsmanna sem skapar tekjur fyrir nærsamfélagið. „Nauðasamningar eru besta leiðin til að verja þau störf og tryggja að hægt sé að halda uppbyggingu starfseminnar áfram á þann veg að fyrirtækið geti starfað í samræmi við starfsleyfi og í góðri sátt við umhverfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK