Erlendir aðilar kaupa 75% í Keahótelum

Hótel Borg er m.a. í eigu Keahótela.
Hótel Borg er m.a. í eigu Keahótela. mbl.is/Golli

Gengið hefur verið frá sölu á Keahótelum ehf.  Seljendur eru Horn II slhf., Tröllahvönn ehf. og Selen ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu en nýir eigendur tóku við félaginu í dag.

Kaupandi er fjárfestingafélagið K Acquisitions ehf. en að baki því félagi standa bandaríska fasteignafélagið JL Properties, með 25% hlut, bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors með 50% hlut og íslenska fjárfestingarfélagið Tröllahvönn með 25% hlut. Tröllahvönn var áður eigandi að 36% hlut í Keahótelum og er því um endurfjárfestingu að ræða að hluta.

Nýir eigendur hyggjast reka fyrirtækið í óbreyttri mynd og verður Páll L. Sigurjónsson áfram framkvæmdastjóri Keahótela. Keahótel eru þriðja stærsta hótelkeðja landsins með 624 herbergi á 8 hótelum sem staðsett eru á Akureyri, við Mývatn og í Reykjavík. Hótelin eru Apótek Hótel, Hótel Borg, Hótel Gígur, Hótel Kea, Hótel Norðurland, Reykjavík Lights, Skuggi Hótel og Storm Hótel. Þá stefnir félagið að opnun nýs 104 herbergja hótels í Reykjavík á árinu 2018. Tekjur Keahótela árið 2016 námu rúmum 4 milljörðum króna og fjöldi starfsmanna á háönn er um 300.   Íslandsbanki hafði umsjón með söluferli Keahótela og var ráðgjafi seljenda en  Logos veitti seljendum lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin. Íslensk Verðbréf og Fjeldsted & Blöndal voru ráðgjafar kaupanda.

Aðilar undirrituðu kaupsamning fyrr í sumar og hafa nú öll skilyrði samningsins verið uppfyllt. Nýir eigendur tóku við félaginu í dag.

„Við erum mjög ánægð að geta tilkynnt um kaup okkar á Keahótelum. Félagið á sér afar farsæla nær 20 ára sögu í ferðaþjónustu á Íslandi og er í dag þriðja stærsta hótelkeðja landsins. Hótel félagsins eru afar vel staðsett og félagið hefur getið sér gott orðspor fyrir góða þjónustu og vandaða hönnun hótela. Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu þegar Exeter, nýtt 104 herbergja hótel, opnar við hafnarsvæðið í Reykjavík á næsta ári. Við teljum Keahótel í sterkri stöðu til að vaxa frekar og nýta þau tækifæri sem við sjáum til sóknar og samlegðar í íslenskri ferðaþjónustu,“ er haft eftir John Rubini, stjórnarformanni og forstjóra JL Properties.

„Ísland er frábært land til að fjárfesta og Pt Capital er spennt fyrir því að taka þátt í frekari uppbyggingu Keahótela í samstarfi við meðfjárfesta okkar frá Íslandi og Alaska. Íslenskur ferðaþjónustumarkaður hefur vaxið gríðarlega hratt undanfarin ár og við hlökkum til að vinna að því að viðhalda og styrkja gott orðspor Keahótela til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar, starfsfólk og aðra haghafa,“ er haft eftir Hugh Short, stjórnarformanni og forstjóra Pt Capital.

„Það hefur verið afar skemmtilegt og lærdómsríkt að taka þátt í uppbyggingu Keahótela og íslenskrar ferðaþjónustu undanfarin ár. Kaup sterkra erlendra fjárfesta á ráðandi hlut í félaginu endurspeglar að til staðar eru mörg tækifæri til sóknar og samlegðar í íslenskri ferðaþjónustu. Endurfjárfesting okkar í félaginu endurspeglar ennfremur trú okkar á framtíð félagsins. Um leið og við þökkum Horni fyrir gott samstarf bjóðum við nýja hluthafa velkomna í hópinn og hlökkum til að vinna með þeim að áframhaldandi framgangi félagsins,“ er haft eftir Kristjáni Grétarssyni stjórnarformanni Keahótela

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK