Drónar flytja veitingar yfir Elliðaárvog

Stórt skref verður stigið í framþróun á drónatækni við heimsendingar í dag þegar netverslunin AHA gerist fyrst fyrirtækja á heimsvísu til þess að nota tæknina til vöruflutninga innan borgarmarka. Þessari nýjung er ætlað að auka skilvirkni í heimsendingaþjónustu, stytta sendingartímann og draga úr orkunotkun.

„Þetta er í fyrsta skipti í heiminum sem fyrirtæki flytur vörur með sjálfstýrðum drónum innanbæjar. Amazon hefur verið að gera þetta úti í sveit við Cambridge fyrir útvalda kúnna en við ætlum að bjóða neytendum upp á að fá veitingar og vörur frá verslunum og veitingastöðum,“ segir Maron Kristófersson, annar stofnandi og eigandi AHA. 

Drónarnir verða tveir til að byrja með en Maron segir að stefnt sé að því að fjórfalda flotann eftir því sem á líður. Kerfið stýrir flugi drónanna á milli tveggja svæða sem skilin eru að af Elliðaárvogi. Flogið verður frá höfuðstöðvum AHA í Skútuvogi út á sjó, þá inn á Gufunesið og lent í skemmtigarðinum í Grafarvogi þar sem viðskiptavinir geta sótt vöruna en ferðin yfir voginn tekur aðeins örfáar mínútur. 

„Við byrj­um á að senda frá völdum fyrirtækjum og veitingastöðum í nágrenninu sem við erum í sam­starfi við. Síðan byrj­um við að flytja vör­ur og verðum með ýms­ar spenn­andi nýj­ung­ar á næstu vik­um.“

Helgi og Maron með drónann.
Helgi og Maron með drónann. Árni Sæberg

Öryggið í fyrirrúmi

Maron og Helgi byrjuðu að hafa samband við fyrirtæki sem auglýstu nýjungar í flutningatækni í bransanum árið 2014 og sumarið 2016 hófust viðræður við Samgöngustofu um leyfi. Eftir ítarlegt umsóknarferli hjá Samgöngustofu fékk AHA leyfi til að hefja flug. 

Þeir komust að samkomulagi við ísraelska fyrirtækið Flytrex sem varð fyrir valinu vegna áherslu á flugöryggi. 

„Fyrst og fremst snýst þetta um að tækið sé öruggt, við viljum ekki taka sénsa. Við völdum að vinna með Flytrex vegna þess að þeir voru ekki að einblína á drónana heldur flugöryggi og að búa til góðan búnað til þess að stýra drónunum.“

Drónarnir eru sjálfstýrðir en Maron segir að krafist sé að starfsfólkið sem stýrir kerfinu skilji til fulls hvernig það virkar. Sex starfsmenn AHA fara á vikulangt flugnámskeið sem felur meðal annars í sér þriggja daga verklega stýringu á drónunum þar sem þeir læra að bregðast við aðstæðum sem geta komið upp. 

„Við erum með mjög örugga flugleið og ef eitthvað fer úrskeiðis eru stjarnfræðilega litlar líkur á að það verði slys á fólki. Við hittum á fullt af veggjum í ferlinu sem var eðlilegt að væru til staðar en náðum á endanum að búa til ásættanlegan pakka þar sem er búið að taka á flugöryggismálum.

Aðeins tímaspursmál

Maron segir mikilvægt að taka snemma þátt í þessari þróun vegna þess að fyrir smáan markað sem vekur litla athygli stórfyrirtækja sé hætta á því að vera aftarlega á merinni. Hann segir tímaspursmál hvenær heimsendingarnar nái upp að dyrum. 

„Spurningin er hvort að það verði eftir eitt ár, þrjú ár eða fimm ár. Eins og staðan er í dag myndi ég ekki vilja vera ábyrgur fyrir því fljúga yfir garða fólks og láta pakkann síga niður en þegar við erum búin að fara nokkur þúsund ferðir er hægt að skoða næstu skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK