Stefna á að tvöfalda starfsemina á Íslandi

NetApp er Fortune 500-fyrirtæki með starfsemi í yfir 100 löndum. …
NetApp er Fortune 500-fyrirtæki með starfsemi í yfir 100 löndum. Jón Þorgrímur Stefánsson er forstjóri þess á Íslandi.

Starfsemi Greenqloud, sem heitir NetApp Iceland eftir að bandaríska tæknifyrirtækið NetApp keypti fyrirtækið í síðustu viku, hefur tekið talsverðum breytingum frá því að Jón Þorgrímur Stefánsson, sem alltaf er kallaður Jónsi, tók við starfi forstjóra í mars 2014.

Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið ört, starfsmönnum hefur fjölgað úr 12 í 42 og stefnt er að frekari fjölgun starfsmanna. „Stefna NetApp er að tvöfalda starfsemina á Íslandi í ár. Ég veit ekki alveg hversu raunhæft það er, en við munum gera okkar besta. Ég hugsa að það sé ekkert hlaupið að því að ráða fjörutíu forritara og hugbúnaðarverkfræðinga á svona skömmum tíma á Íslandi, en við munum reyna og það verða auglýstar stöður hjá okkur bráðlega. Það ætti að hjálpa að NetApp hefur ítrekað verið valið eitt besta fyrirtæki Bandaríkjanna til að vinna fyrir og að sjálfsögðu verður engin undantekning þar á í starfsemi þess á Ísland. Síðan höfum við verið með starfsemi í Seattle og það stendur líka til að stækka starfsemina þar,“ segir Jónsi.

Fleiri höfðu áhuga

Spurður um aðdraganda yfirtökunnar segir Jónsi að þetta hafi átt sér talsverðan aðdraganda. „Við höfum verið að vinna með NetApp af og til í ýmsum verkefnum ásamt fleiri stórum fyrirtækjum. Það voru fleiri fyrirtæki sem höfðu áhuga á að kaupa okkur en ég má því miður ekki upplýsa meira um það. Þetta gekk allt frekar fljótt fyrir sig eftir að við fórum að einbeita okkur fyrst og fremst að vöruþróun. NetApp gerði mjög gott tilboð en kaupverðið er trúnaðarmál. Ég myndi glaður deila því ef ég mætti, ég held að það sé óhætt að segja að það séu allir mjög ánægðir með söluna.“

„Við getum seint þakkað fjárfestum okkar og þeim sem stóðu á bakvið okkur nægilega mikið,“ segir Jónsi. Stærsti hluthafi Greenqloud var fjárfestingarfélagið Kjölur Invest en þar á eftir komu Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Novator, bandaríska athafnakonan Kelly Ireland, Birkir Kristinsson og stofnendur fyrirtækisins, þeir Tryggvi Lárusson og Eiríkur Hrafnsson.

Sjá gríðarleg tækifæri

Fyrir þremur árum breytti Greenqloud um stefnu og hóf þróun á vörunni Qstack í stað almennrar skýjaþjónustu sem var keyrð á endurnýjanlegri orku. „Við erum að vinna að mjög stórum verkefnum núna. NetApp hefur fyrst og fremst verið í gagnageymslu og þess háttar starfsemi en er að færa sig mikið yfir í að vinna í því sem er kallað „hybrid cloud“, sem er blanda af hefðbundinni gagnageymslu og almennum skýjalausnum. Það sér gríðarleg tækifæri í vörunni okkar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK