Ríkinu bauðst að þjóðnýta Arion banka árið 2015

Paul Copley, forstjóri Kaupþings
Paul Copley, forstjóri Kaupþings mbl.is/Hanna

Til skoðunar er í tengslum við frekari sölu á hlutum Kaupþings í Arion banka að halda almennt hlutafjárútboð og skrá hlutabréfin í kauphöll hér á landi og erlendis en enn sem komið er hefur ekki verið tekin ákörðun um næstu skref. Til þess að það geti gerst þarf meðal annars að breyta forkaupsrétti ríkisins eins og kveðið er á um í samningum milli aðila. Paul Copley, forstjóri Kaupþings, segir að upphaflega hafi verið til skoðunar að halda útboð í lok síðasta árs, en óvænt ríkisstjórnarskipti hafi komið í veg fyrir það.

Paul Copley, forstjóri Kaupþings, tók við starfinu 1. apríl á síðasta ári. Hann er fyrrverandi starfsmaður og meðeigandi PwC-endurskoðunarskrifstofunnar í Lundúnum, sérhæfður í endurskipulagningu fyrirtækja, og var í sex ár einn af lykilmönnum í skiptum á slitabúi Lehman Brothers í Bretlandi, en gjaldþrot fjárfestingarbankans Lehman Brothers árið 2008 er stærsta gjaldþrot fjármálasögunnar.

„Kaupþing er í raun þrískipt,“ segir Copley spurður að því hver staðan sé á eignasafni félagsins í dag, en búið samanstendur af þeim eignum sem urðu eftir í búi Kaupþings þegar bankinn féll í kjölfar fjármálahrunsins í október árið 2008. „Í fyrsta lagi er það Arion banki, sem er eina eign okkar hér á Íslandi. Þá eru það eignir í rekstrarfélögum víða í Evrópu sem flestar fóru í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu eftir hrun, fasteignaverkefni í Lundúnum og Frakklandi, en einnig tískuvörumerkið Karen Millen í Bretlandi og móðurfélag tískubúðanna Coast, Oasis og Warehouse, sömuleiðis í Bretlandi. Ennfremur eigum við framleiðslufyrirtæki í Skandinavíu. Í þriðja lagi eigum við ótal umfangsmikla fjármálagjörninga sem urðu til í hruninu, lán og kröfur. Öll þessi verkefni líkjast því sem ég fékkst við í starfi mínu hjá Lehman Brothers. Kaupþing er stórt uppgjörsverkefni og ég var ráðinn hingað til að leggja fyrirtækið niður á sem allra skemmstum tíma, koma eignunum í verð og skila peningunum til eigendanna eins fljótt og hægt er á skynsamlegan hátt. Hingað til hefur það gengið mjög vel, og ég legg mikla áherslu á að vinna þetta í sem mestri samvinnu við alla aðila, á eins átakalausan og þægilegan hátt og mögulegt er.“

Góður árangur á öllum sviðum

Copley segir að náðst hafi góður árangur á öllum þremur fyrrnefndum sviðum í starfsemi félagsins. „Við höfum farið skipulega í gegnum rekstrarfélögin og fasteignafélögin. Allt er til sölu, nema góð ástæða sé til annars. Margir söluferlar eru í gangi, og við höfum lokið við ýmis verkefni, eins og fasteignaverkefni í Lundúnum til dæmis. Við erum í miðju kafi að selja tískuvörumerkin okkar þrjú í Lundúnum. Mögulega seljum við fljótlega, mögulega ekki. Það er ekkert sem liggur á, en við bíðum eftir rétta tækifærinu. Hvað Karen Millen varðar þá er það í endurskipulagningarferli, og það liggur ekkert á að selja. En það gengur mjög vel. Fyrir hvert einasta verkefni og hverja einustu eign í búinu er vel skipulögð og nákvæm verk- og tímaáætlun í gangi.“

Eign Kaupþings í Arion banka, sem nú stendur í tæplega 58% eftir sölu á ríflega 29% hlut til þriggja vogunarsjóða og Goldman Sachs-fjárfestingarbankans fyrr á árinu, er tilkomin vegna stöðugleikaskilyrða sem Kaupþing undirgekkst sem hluta af samningum við stjórnvöld árið 2015. Ríkið á 13% hlut í bankanum. „Allar aðrar íslenskar eignir okkar voru fluttar til stjórnvalda sem hluti af stöðugleikaskilyrðunum. Þar á meðal var til dæmis eign okkar í Klakka, sem á bílafjármögnunarfyrirtækið Lýsingu, auk fleiri eigna og lána sem voru aðallega í íslenskum krónum eða tengdust Íslandi á einhvern hátt.“

Copley segir að samkvæmt stöðugleikaskilyrðunum hafi Kaupþing verið látið eiga áfram 87% í bankanum og falið að fá eins hátt verð fyrir Arion banka og hægt væri, en í kringum 70% af söluandvirðinu mun renna til ríkisins sem hluti af skilyrðunum. Til samanburðar má geta þess að þrotabú Glitnis fór aðra leið og færði ríkinu Íslandsbanka í heild sinni.

„Þetta var gert svona til að stilla saman hagsmuni eigenda Kaupþings og ríkisins. Við eigum í reglulegum beinum samskiptum við stjórnvöld og fjármálaráðuneytið vegna þessara mála, og þeir fylgjast grannt með hverju skrefi okkar. Alltaf þegar Arion banki er ræddur á stjórnarfundum okkar þá er fulltrúi stjórnvalda á þeim fundum og hann hefur öll gögn undir höndum sem eru rædd.“

Spurður af hverju ekki hafi verið farin sama leið með Arion banka og Íslandsbanka segir Copley að upphaflega hafi það staðið til. Á endanum hafi það verið metið svo að erfiðara yrði að koma Arion banka í verð alþjóðlega og því var Kaupþingi falið verkefnið. „Innan Kaupþings er mikil reynsla og þekking á markaðssetningu fjármálaafurða á alþjóðavettvangi. Þetta er klók áætlun þar sem allir græða á að fá sem best verð fyrir bankann og klára verkefnið eins fljótt og hægt er. Við tökum mikla áhættu af því ef þetta fer illa, en ef vel gengur þá njóta allir góðs af því. Því lengur sem verkefnið dregst því meiri er okkar áhætta. Það vilja allir að þetta gangi vel.“

Hvað vakti að þínu mati helst áhuga fjárfesta í lokaða útboðinu fyrr á árinu á fjárfestingu í Arion banka?

„Þetta er líklega þekktasti íslenski bankinn á alþjóðagrundu og sá eini af þeim stóru sem er í einkaeigu. En þetta var eflaust ekki eina ástæðan fyrir áhuga manna. Fólk horfir á Ísland sem griðastað í heimi sem er dálítið skrýtinn þessi misserin. Hér er viðskiptaafgangur, verðbólga, eðlilegt vaxtastig, góður hagvöxtur og mikilll vöxtur í grunnatvinnuvegunum; ferðaþjónustu, orkuiðnaði og fiskveiðum. Ef maður horfir í kringum sig þá er evrusvæðið með neikvæða vexti, enn er mikið af skuldavandamálum á efnahagsreikningum gömlu stóru bankanna og það er óvissa í Bandaríkjunum.“

Ólíkur gamla Kaupþingi

Copley segir að Arion banki sé ólíkur því sem Kaupþing var fyrir hrun. Hann ætli sér að starfa á heimamarkaði og vaxa í takt við innlenda markaðinn. Þar vilji bankinn verða bestur á sínu sviði. „Arion ætlar sér ekki að verða þessi stóri alþjóðlegi banki sem Kaupþing var orðinn, þannig að það hefur ekki verið erfitt fyrir okkur að gera fólk spennt fyrir að fjárfesta hér.“

En hvaða tegund af fjárfestum er áhugasöm?

„Það sem hefur breyst síðan ég hóf störf er að í fyrstu var aðallega áhugi hjá vogunarsjóðum en núna hafa fjárfestingarsjóðir í ríkiseigu, almennir hlutabréfasjóðir og tryggingafélög sýnt mikinn áhuga, ásamt vogunarsjóðunum. Fljótlega eftir að ég kom voru Panama-skjölin birt með þeim hneykslismálum sem fylgdu í kjölfarið og pólitískri óvissu. En eftir því sem tímanum vindur fram, meiri stöðugleiki kemst á og hagkrefið heldur áfram að vaxa eru alvöru langtímafjárfestar komnir með áhuga á Arion og Íslandi.

Nefna má að í almennu útboði viltu fá langtímafjárfesta, þú vilt vogunarsjóði og þú vilt fjárfestingu frá almenningi og smærri aðilum. Það væri óvenjulegt að vera með frumútboð þar sem bara vogunarsjóðir sýndu áhuga, eða bara hlutabréfasjóðir.“

Copley segir, aðspurður um hvernig íslenska krónan horfi við þessum alþjóðlegu fjárfestum í þessu samhengi, að hún hjálpi ekki til, eins og hann orðar það. „Það er mikið flökt á krónunni og viðskipti með hana lítil. Það er því engin spurning að fjárfestar horfa mjög til þess. Flöktið getur þýtt að verðið hækkar í krónum talið. Ef þetta væri í evrum væri þetta mun einfaldara fyrir fjárfesta.“

Hann segir að aflétting gjaldeyrishafta fyrr á árinu hafi hjálpað mikið til í þessu samhengi. „Allir þeir fjárfestar sem eru búnir að kaupa í Arion banka og veltu fyrir sér að stunda gjaldeyrisvarnir hafa nú þegar gert það. Möguleikinn á að verja sig er mjög mikilvægur. En vandamálið þar er að gjaldeyrisflæði er svo lítið, að minnsta hreyfing á alþjóðlegan mælikvarða skapar mikið flökt. Það er því ekkert auðvelt svar við þessu með krónuna. Núna er Seðlabankinn hættur að kaupa gjaldeyri og því horfa alþjóðlegir fjárfestar mikið í þetta mál og það er smá hemill.“

Hvað með smæð hagkerfisins, er það ekki mótdrægt?

„Þetta er öruggt land og vaxandi hagkerfi sem lítur eðlilega út. Ef þú biður sjóðsstjóra að horfa á íslenska hagkerfið færðu kannski ekki mikil viðbrögð, en ef þú býður þeim fjárfestingartækifæri af þokkalegri stærð með þokkalegum seljanleika, sem Arion banki er án efa og Íslandsbanki líka, nærðu athygli þeirra. Þetta er gott og aðlaðandi tækifæri í óstöðugum og óvissum heimi. Ef þú berð Ísland í dag saman við Ísland fyrir tíu árum er þetta gjörólíkt. Stærð hagkerfisins fælir ekki frá, það er alveg á hreinu.“

Yrði fyrsta tvöfalda skráning í frumútboði í sögunni

Varðandi tvöfalda skráningu hlutabréfa bankans ef af frumútboði yrði segir Copley að slíkt sé í skoðun eins og komið hefur fram í ársfjórðungsuppgjörum Arion banka. „Það svarar ýmsum spurningum um gjaldmiðla og seljanleika sem fjárfestar kunna að hafa. Sumir geta ekki einu sinni fjárfest á Íslandi og eru ekki reiðubúnir að eyða fjármunum og tíma í þá forvinnu sem nauðsynleg er, bara til að geta keypt í einu félagi í íslensku kauphöllinni. Kauphöllin íslenska er frekar lítil í samanburði við evrópskar kauphallir. Með samhliða skráningu í erlendri kauphöll yrði fólki gefinn kostur á að eiga viðskipti bæði á Íslandi eða annars staðar í íslenskri krónu eða annarri mynt. Við teljum að mesta eftirspurnin myndi koma frá útlöndum. Það væri mikilvægt að hafa tvöfalda skráningu til að hámarka sýnileika bréfanna og eftirspurnina.“

Copley segir að gaman yrði að fylgjast með því í fyllingu tímans hvort fólk eigi eftir að eiga viðskipti hér á landi með bréfin eða á hinum markaðnum í meira mæli. „Ef af verður yrði þetta fyrsta tvöfalda skráning í frumútboði hlutabréfa í íslenskri fjármálasögu og fyrsta alþjóðlega markaðssetningin af þessari stærðargráðu. Þetta myndi verða risastór áfangi fyrir íslenskan fjármálamarkað. Við værum að varða veginn og setja fordæmi fyrir önnur íslensk fyrirtæki í framtíðinni.“

Spurður hvaða kauphöll gæti orðið fyrir valinu fyrir skráningu erlendis segir Copley að horft sé til kauphallar í Skandinavíu. Ekki sé búið að taka formlega ákvörðun enn, hvorki um hvort af skráningu verður eða hvar.

Hafið þið farið víða til að kynna bankann sem fjárfestingarkost?

„Já, það hefur þegar farið fram mikið kynningarstarf. Það eru aðallega lykilstjórnendur Arion banka sem bera ábyrgð á þeim kynningum.“

Eins og komið hefur ítrekað fram í fjölmiðlum er það hluti af stöðugleikaskilyrðunum að fari verðið í útboðinu undir gengið 0,8 miðað við bókfært eigið fé þarf Kaupþing að bjóða ríkinu hlutinn. Ríkið hefur þá fimm daga til að ganga inn í kaupin. Þau skilyrði eru eins konar öryggisventill fyrir ríkið, svo ekki sé hægt að sniðganga stöðugleikaskilyrðin og þá samninga sem voru gerðir í tengslum við stöðugleikaframlög Kaupþings „Málið er að þegar kemur að frumútboðum hlutabréfa er ekki hægt að hafa svona fimm daga reglu. Maður hefur í mesta lagi einn dag til að samþykkja eða hafna tilboðum frá fjárfestum, og jafnvel bara nokkra klukkutíma. Þess vegna stendur í stöðugleikasamningunum að komi til almenns hlutafjárútboðs skuli þessu breytt. Ríkið hefur alltaf vitað af þessu. Það eru aldrei forkaupsréttir virkir þegar kemur að frumútboðum. Ef það væri forkaupsréttur virkur er áhættan sú að fjárfestar sjái það og stígi til baka út af óvissunni sem það skapar og þá fáum við ekki rétta mynd af hinni raunverulegu eftirspurn í útboðinu. Við erum því að leitast við að gera þetta á eins þægilegan hátt og hægt er. Við höfum átt í viðræðum við fulltrúa ríkisins um þetta atriði eins og kveðið er á um í samningum milli aðila. Við getum lítið gert fyrr en þetta hefur verið afgreitt. Aðilar þurfa að vinna saman að því að útfæra þetta.“

Fyrrverandi forsætisráðherra vissi að ríkið gat eignast bankann

Forkaupsréttur ríkisins komst mikið í umræðuna eftir að 29% hluturinn var seldur í bankanum í vor og í kjölfarið lýsti meðal annars fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, því til dæmis yfir að hann vildi að ríkið fengi forkaupsréttinn virkjaðan og nýtti hann til að eignast bankann í heild.

„Sigmundur var forsætisráðherra á þeim tíma sem stöðugleikaskilyrðin voru samþykkt. Eigendur Kaupþings vildu í raun afhenda ríkinu bankann sem hluta af stöðugleikaskilyrðunum, en ekki varð af því. Þannig að Sigmundur er mjög vel meðvitaður um af hverju við eigum Arion banka en ekki ríkið og af hverju þetta forkaupsréttarákvæði var sett. Þetta er pólitísk ákvörðun og ríkisstjórnin sem nú situr vill selja sinn hlut í bankanum og út frá því vinnum við. Þeir hefðu getað þjóðnýtt bankann, þeim var boðið það. Ég er maður sem leysi upp þrotabú. Ef þeir vilja fara aðra leið þá ættum við að ræða það og gera það, en miðað við núverandi stefnu, sem er að selja bankann, vil ég gera það á sem átakaminnstan hátt í góðu samstarfi við alla.

Ef af útboði verður, mun ríkið eiga möguleika á að taka þátt í því og selja sín 13% í bankanum?

„Já, þeir myndu eiga rétt á því að vera með í útboðinu en væru ekki skuldbundnir til þess. En við vitum ekki fyrirætlanir ríkisins enn sem komið er en frumútboð myndi gefa ríkinu auðvelda leið til að selja hlut sinn.“

Copley segir að fari þetta svona eins og hann lýsir verði næsta mál hjá ríkinu að hefja söluferli hinna bankanna tveggja, Íslandsbanka og Landsbankans, byggt á þessari reynslu. „Þetta verður nokkurs konar prufudæmi sem mun nýtast ríkinu við markaðssetningu hinna bankanna alþjóðlega. Þetta er allt mjög nýtt fyrir þeim og þeir vilja læra af ferlinu.“

Copley segir að Kaupþing beri meirihlutann af kostnaði af sölu hlutabréfanna í Arion óháð því hvernig þau eru seld. „Það er hluti af stöðugleikaskilyrðunum að við greiðum fyrir sölu hluta í bankanum. Þetta er því mjög ódýrt fyrir ríkið. Við værum að eyða milljörðum íslenskra króna ef bréfin yrðu seld í frumútboði, eða tugum milljóna punda. Við værum þannig að skapa farveg sem ríkið getur svo notað til að selja sinn hlut ef það vill. Þetta er ekki ósvipað því sem gert var með Lloyds-bankann í Bretlandi. Breska stjórnin hefur verið að selja Lloyds í smáskömmtum og notar til þess skráningu bréfa Lloyds á hlutabréfamarkaðnum. Íslenska ríkið gæti farið eins að. Við erum sem sagt að gefa ríkinu fullt af möguleikum, nánast ókeypis, sem er hið besta mál.“

Fyrr í sumar var sagt samkvæmt heimildum í fjölmiðlum, að nýir eigendur Arion banka, vogunarsjóðirnir Taconic, Och-Ziff og Attestor Capital, hygðust ekki nýta sér kauprétt að 21,9% hlut í bankanum til viðbótar við þau 29% sem keypt voru í vor. „Þeir höfðu allir val um að kaupa fleiri hluti en þurfa samþykki FME fyrir því að fara með eignarhlut yfir 10%. Þeir eru allir undir þeim mörkum í dag. Þessi kaupréttur er enn í gildi, en um leið og frumútboð hæfist fellur hann úr gildi. Fram að því munu þeir ekki geta nýtt sér möguleikann nema með þessa vottun frá FME.“

Copley segir að Kaupþing sé einnig í samskonar vottunarferli hjá FME. „Það er önnur forsenda fyrir því að hægt sé að setja frumútboð af stað og ákvarða stærð þess, að vera metnir hæfir hjá FME til að fara með virkan beinan eignarhlut yfir 10%. Þetta er nauðsynlegt þar sem líklegt er að við verðum einn stærsti, ef ekki stærsti, eigandi Arion banka í einhvern tíma eftir útboð, ef af verður, en í dag er það dótturfélag okkar Kaupskil sem fer með okkar eignarhlut samkvæmt skilyrðum FME.“

Hann segir að þó svo að kaupréttur vogunarsjóðanna þriggja í Arion banka sé enn virkur telji hann að þeir muni ekki nýta sér hann, þó svo þeir fái grænt ljós tímanlega frá FME. „Það er samt ekki mitt að ákveða. Samkvæmt kaupsamningum í lokaða útboðinu er kveðið á um að ef af frumútboði verður þá verði þeirra hlutur sá sami í að minnsta kosti sex mánuði frá útboðinu, því hluturinn læsist í þann tíma og það sama á við um okkur. Þannig að þeir verða hluthafar áfram og mættu ekki selja í frumútboði. Ég veit heldur ekki til þess að neinn þeirra myndi vilja selja. Þeir hafa ekki tilkynnt mér það og ég ræði við þá mjög oft,“ segir Copley.

Selja ekki fleiri hluti fyrr en ákvörðun hefur verið tekin

Hvað með aðkomu íslensku lífeyrissjóðanna?

„Lífeyrissjóðirnir eru fyrirferðarmiklir á íslenska markaðnum. Við ætlum ekki að selja fleiri hluti í bankanum fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um frumútboð eða ekki.“

Þið hafið átt í viðræðum við þá síðan á síðasta ári ekki satt?

„Já, við ræddum við þá um kaup á hlutum í lokuðu útboði. Ef við horfum aðeins til baka þá komu Panama-skjölin og stjórnarskiptin í veg fyrir að hægt væri að selja hlutabréf í bankanum á þeim tíma. Við vildum ekki selja á sama tíma og það væru kosningar út af óvissunni sem skapast. Til að gera gott úr þessu vildum við selja einhverja hluti til fjárfesta í lokuðu útboði. Við höfðum því samband við marga erlenda fjárfesta, m.a. marga af eigendum Kaupþings, ekki bara þá sem keyptu á endanum, flesta ef ekki alla lífeyrissjóðina hér á landi, tryggingafélög, fjársterka einstaklinga og fleiri. Við leituðum fanga ansi víða. Undir lok síðasta árs vorum við mjög nálægt því að selja hlut, en það brást. Svo kom nýtt ár og ég hélt að það væri engin von til þess að selja neitt í lokuðu útboði en þá kom áhugi á kaupum. Við vorum að semja við lífeyrissjóðina á þeim tíma, þá stærstu það er að segja, og þegar við lukum sölunni fengu þeir ekki að kaupa af því að það voru aðrir sem buðu hærra. Ég gæti ekki sagt við mína eigendur og stjórnvöld að ég sé að selja þeim sem ekki býður hæst. Það er bara tómt rugl.“

Er mikilvægt að fá íslensku lífeyrissjóðina með?

„Það er mikilvægt, en myndi ekki stoppa framgang almenns útboðs. Ef og þegar af verður þá munu þeir þurfa að taka fjárfestingarákvörðun eins og aðrir.“

Hvað með starfsmenn bankans, sem eru nálægt 1.000 talsins, fengju þeir að kaupa í bankanum á sérkjörum eins og oft tíðkast í svona útboðum?

„Þetta er til skoðunar en engin ákvörðun hefur verið tekin frekar en um útboðið sjálft.“

Hverju má búast við hvað varðar heildarendurheimtur slitabúsins?

„Almennt gengur verkefnið hraðar en ég bjóst við. Þegar ég hóf störf setti ég upp skjal með hverri einustu eign í búinu, með nákvæmri verk- og tímaáætlun. Við höfum verið á undan áætlun með flest verkefnin og náð hærra verði út úr eignunum líka.

Eigendur Kaupþings, sem eru aðallega vogunarsjóðir, en einnig íslenskir lífeyrissjóðir, minni hluthafar og nokkrir Íslendingar, eru skynsamt fólk, en dagskipunin er að loka Kaupþingi eins fljótt og skynsamlegt er til að geta skilað peningum til hluthafa okkar. Við erum að skila peningum stöðugt til hluthafa í hverjum einasta mánuði. Það er virkur eftirmarkaður með skuldabréf útgefin af Kaupþingi, þótt þau séu óskráð. Verðið á þessum bréfum útgefnum af Kaupþingi hefur tvöfaldast síðan ég kom til starfa. Þeir sem bjuggust við að fá 70% af 30% af kröfu sem er að nafnvirði 100 fá núna meira en 100% af 30%. Endurheimtur búsins eru því líklega í kringum eða yfir 30% af upprunalegu virði þess, en skuldirnar skipta svo ört um hendur, nánast daglega, þannig að í dag eru örfáir upprunalegir hluthafar eftir í Kaupþingi, en þar á meðal eru til dæmis nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir.

Endurheimturnar til almennra og ótryggðra kröfuhafa í Kaupþing gætu því orðið um 3,2 milljarðar sterlingspunda, eða um 434 milljarðar íslenskra króna.“

Ríkið fær fyrstu 84 milljarðana

Copley segir að samkvæmt stöðugleikaskilyrðunum fái ríkið fyrstu 84 milljarðana af söluandvirði Arion banka. Þannig hafi ríkið fengið allt söluandvirði hlutanna sem seldir voru í vor, sem voru um 49 milljarðar króna. „Þegar söluandvirðið verður komið yfir 100 milljarða skiptum við hagnaði með ríkinu. Þegar þessir 84 milljarðar eru lagðir saman við hagnaðarskiptinguna má segja að ríkið sé búið að fá í kringum 70% af söluandvirði okkar hlutar í bankanum. Til viðbótar fær ríkið auðvitað hið svokallaða stöðugleikaframlag upp á tugi milljarða króna af öðrum eignum og kröfum sem tengdust Íslandi, sem við greiðum ríkinu einnig sem hluta af stöðugleikaskilyrðunum.“

Fyrir einu ári kom Paul Copley í Kastljós á RÚV til að ræða bónuskerfi Kaupþings, en mikil umræða fór af stað um kerfið á þeim tíma og hótuðu þingmenn meðal annars að setja ofurskatta á bónusana, sem þeim fundust óviðeigandi, enda hefði Kaupþing hrunið með tilheyrandi tjóni fyrir íslensk fyrirtæki og fjölskyldur. Hefur eitthvað nýtt gerst í þessu máli, og komu viðbrögðin þér á óvart?

„Það hafa a.m.k. engar lagabreytingar orðið síðan þá. Og bónuskerfið hefur virkað eins og það átti að gera, sem var að hvetja fólk til góðra verka, að hámarka endurheimtur, og ljúka því hratt. Hér klára menn því verkefnin sín á góðum tíma og hætta svo. Það hafa margir hætt hér eftir að ég byrjaði og horfið til annarra starfa.

Viðbrögðin við bónuskerfinu voru ekki beint óvænt. Það að vinna fyrir Kaupþing gerir mann ekki vinsælan. Kaupþing er í huga fólks táknmynd hrunsins. Margir hafa farið í fangelsi út af því. Bónuskerfið er margreynt og ég notaði það með góðum árangri hjá Lehman Brothers. Fólki er uppálagt að vinna þar til starfinu er lokið og þér er umbunað fyrir að leysa það hratt og örugglega af hendi.

Ég er sannfærður um að þetta er gott kerfi, en ég vissi að það yrði ekki vinsælt út á við. Hversu óvinsælt það varð kom mér aðeins á óvart, enda hafði ég ekki mikið verið á Íslandi áður en ég tók starfið að mér og vissi því ekki hverju ég gæti búist við. Ég vil ekki koma neinum í uppnám, en ég þarf að ljúka þessu starfi hið allra fyrsta og bónuskerfið er hluti af því, en það er í gildi til mars á næsta ári.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir