Glaðheimar rísa á stafrænum grunni

Nýtt hverfi rís í Glaðheimum við Lindahverfi í Kópavogi þar sem áður voru reiðhöll og hesthús Hestamannafélagsins Gusts. Búið er að smíða vefsíðu sem lýsir hverfinu á myndrænan hátt og gerir væntanlegum kaupendum kleift að skoða sig um áður en verkinu lýkur.
Fyrir tveimur og hálfu ári var greint frá áformum um að reisa nýtt hverfi við Lindahverfi, austan Reykjanesbrautar og Smára-hverfis. Í hverfinu rísa tíu fjölbýlishús í fyrsta áfanga af þremur en næsti áfangi er þegar í undirbúningi. Þegar upp er staðið verða íbúðirnar í nýja hverfinu 500 talsins.

„Framkvæmdir ganga mjög vel. Við höfum lagt mikla áherslu á að þessi áfangi verði kláraður á svipuðum tíma til þess að minnka rask í Lindarhverfinu. Eftir ár verður fyrsti áfangi langt kominn og innan fárra ára ætti allt hverfið að vera risið,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður skipulagsráðs Kópavogsbæjar, í samtali við Morgunblaðið.

Kynna hverfið myndrænt

Markaðsstofa Kópavogs og framkvæmdaraðilar sem koma að uppbyggingunni kynna í dag vefsíðuna gladheimahverfid.is þar sem finna má ýmsar upplýsingar um Glaðheima. Þar er gagnvirk og þrívíð tölvuteikning af hverfinu sem gerir kaupendum kleift að fara í útsýnisferð. Einnig má finna upplýsingar um alla þjónustu í nágrenninu, til að mynda skóla og tómstundir.

„Þessi heimasíða er samstarfsverkefni þar sem bærinn og framkvæmdaaðilar taka sig saman og kynna hverfið sameiginlega. Kópavogsbæ er þátttakandi í þessu samstarfi til þess að auka þjónustuna við þá sem vilja flytja í Kópavog þar sem við leggjum áherslu á að allar upplýsingar um nágrennið og þjónustu séu aðgengilegar,“ segir Theodóra.

Hún segir að það geti verið gagnlegt fyrir væntanlega kaupendur að hafa yfirsýn yfir alla þjónustu í grenndinni, hvort sem um sé að ræða skólamál, tómstundir eða samgöngur.

„Foreldrar vilja til dæmis vita hversu langt er í skólann, hvernig gönguleiðirnar eru, hvernig skólaakstri er háttað og fleira. Við lítum á þetta sem aukna þjónustu, það mætti gera meira af þessu fyrir önnur hverfi í Kópavogi.“

Glaðheimahverfið samkvæmt tölvuteikningu.
Glaðheimahverfið samkvæmt tölvuteikningu. Tölvuteikning/ONNO

Grunnþjónusta í göngufæri

Í fyrsta áfanga rísa einungis fjölbýlishús með 300 íbúðum en í öðrum áfanga rís blönduð byggð nær Reykjanesbrautinni og að sögn Theodóru er lagt upp með að öll grunnþjónusta sé í göngufæri.

„Glaðheimar rísa í grónu hverfi þar sem öll þjónusta er til staðar. Hér eru heilsugæslu, læknavakt, bankar og bíó og önnur þjónusta og nánast allt í göngufæri. Þetta er tilvalið svæði fyrir þéttingu byggðar.

Að sögn Theodóru er lögð sérstök áhersla á að útlit þorpsins verði samrýmt. Allt efnisval, til dæmis hellur á gangstéttum og innkeyrslum, verður samrýmt, bæði hvað varðar bæjarlandið og lóðir fjölbýlishúsanna. Hún segir að hverfið verði umhverfisvænt með tilliti til lýsingar og sorpmála og að tengjum fyrir rafbíla verði komið fyrir í einhverjum mæli. 

Framkvæmdum miðar vel.
Framkvæmdum miðar vel. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK