Vandasamt að ná fram jafnrétti

Birna Einarsdóttir veitti Hvatningarverðlaununum viðtöku í fyrra.
Birna Einarsdóttir veitti Hvatningarverðlaununum viðtöku í fyrra.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála verða afhent í hátíðarsal Háskóla Íslands 26. september nk. og þessa dagana er óskað eftir tilnefningum. Markmið verðlaunanna er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem stuðlað hafa að jafnrétti á markvissan hátt innan sinna fyrirtækja og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Frestur til að senda inn tilnefningar er til 19. september.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur síðan hann tók við forstjórastarfinu árið 2011 lagt mikla áherslu á jafnréttismál, en Orkuveitan fékk Hvatningarverðlaunin árið 2015. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að á þeim tíma sem hann tók við hafi miklar áskoranir blasað við í rekstrinum, og hann hafi ákveðið að setja jafnréttismálin á dagskrá af festu strax í upphafi og byrja á því að ná jöfnu hlutfalli kynja í stjórnendateymi félagsins. Á þeim tíma voru konur 24% stjórnenda en í dag eru konur 51% stjórnenda. Bjarni segir að jafnrétti sé eins og önnur verkefni, þau þurfi að fremja, eins og hann orðar það, ekki sé nóg að aðhyllast jafnrétti. „Ég fullyrði að blandaðir vinnustaðir eru betri, skemmtilegri og betur reknir. Ákvarðanir eru ekki teknar fyrirfram og tilkynntar á fundum heldur teknar við fundarborðið,“ segir Bjarni.

Eigum kost á betra starfsfólki

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, sem fékk verðlaunin árið 2014, segir aðspurð um gildi verðlaunanna, að þau séu skemmtileg hvatning fyrir félagið. „Þau eru mikilvæg til að vekja athygli og leggja áherslu á þennan grundvallarmálaflokk,“ segir Rannveig í samtali við Morgunblaðið. Hún segir að enn sé margt óunnið á sviði jafnréttismála innan íslenskra fyrirtækja, og framfarir hafi orðið hægar. „Það er vandasamt að ná þessu fram, jafnvel fyrir þá sem hafa áhuga og vilja til að standa sig vel í jafnréttismálum.“

Rannveig segir að aukið jafnrétti innan Rio Tinto Alcan þýði að fyrirtækið eigi kost á betra starfsfólki, og hægt sé að velja úr fjölbreyttari hópi umsækjanda sem allir eigi að hafa vissu fyrir því að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar. „Við náum breiðari umræðu meðal starfsmanna um ýmis mál og liðsheildin okkar verður öflugri,“ segir Rannveig að lokum

Fögnum öllum sigrum

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sem fékk verðlaunin á síðasta ári, segir að verðlaun sem þessi hafi mikið gildi, og bankinn geri mikið úr þeim. „Mér finnst að við eigum að fagna öllum sigrum eins og þessum. Það að vinna svona verðlaun er hvatning til að halda áfram á sömu braut,“ segir Birna í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða í bankanum til að styðja konur og jafnrétti. „Ég vil fjölbreytni, karla og konur, yngri og eldri, góða blöndu. Það er mjög mikilvægt. Það er líka mikilvægt að ungir karlmenn sem koma til starfa hjá okkur líti ekki þannig á að þeir eigi ekki bjarta framtíð fyrir sér hér.“

Birna segir að mikilvægt sé að vinna gegn þeirri gömlu mýtu að konur sæki ekki um störf og komi sér ekki á framfæri. „Við viljum tryggja að þær sýni áhuga. Ef það er ekki þannig þá þurfum við að styðja þær til að þær komist þangað og vekja áhuga.“ Hún segir að vilji sé allt sem þurfi þegar komi að breytingum í fyrirtækjum. „Mörg fyrirtæki eru að gera góða hluti og viðhorfið er að breytast, en tölfræðin sýnir að enn eru æðstu stjórnendur að langstærstum hluta karlmenn.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að Hvatningarverðlaunin veki athygli á þeim fyrirtækjum sem skara fram úr í jafnréttismálum. „Þau leiða til umræðu á vinnustöðum og annars staðar sem hollt er að taka reglulega. Vinnustaðir með fjölbreyttari hóp starfsfólks eru almennt sterkari en þeir sem eru einhæfir. Það er því í mínum huga styrkleikamerki að hljóta þessi verðlaun.“

Skilyrði verðlaunanna eru:

  • Stefna fyrirtækis í jafnréttismálum hafi skýran tilgang og markmið
  • Jafnrétti hafi fest rætur og sýnt er fram á varanleika
  • Vakin sé athygli á rekstrarlegum ávinningi af jafnrétti
  • Jafnréttissýnin sé hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki
  • Sýnt sé frumkvæði og nýsköpun sem stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK