Persónuvernd fær 209 milljóna fjárheimild

Persónuvernd fær aukna fjárheimild vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar
Persónuvernd fær aukna fjárheimild vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarfjárheimild Persónuverndar fyrir árið 2018 er áætluð 209 milljónir króna og hækkar um 86,6 milljónir króna frá gildandi fjárlögum að frátöldum launa og verðlagsbreytingum en þær nema 5,1 milljón. 

Fjárheimild Persónuverndar er aukin um alls 88 milljónir til að styrkja starfsemi stofnunarinnar þannig að hún verði í stakk búin að mæta áherslum nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd en stofnunin fær jafnframt 12 milljón króna framlag vegna vinnu við endurbætur á persónuverndarlöggjöf, sem átti að falla niður, en er framlengd í eitt ár. 

Umfangsmesta breyting í sögu persónuverndarlöggjafar verður innleidd í íslenskan rétt á vormánuðum og mun hlutverk Persónuverndar breytast mikið. 

Í umsögn Persónuverndar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 20122 óskaði Persónuvernd eftir rúmum 217 milljónum fyrir árið 2018 og vantar því 8 milljónir upp á að stofnunin fái umbeðna upphæð. Fjárheimildir stofnunarinnar hafa aftur á móti hækkað mikið undanfarin ár en árið 2007 var endanleg fjárheimild Persónuverndar 60 milljónir. 

Persónuvernd tilkynnti í gær að fyrirsjáanlegt sé að tafir muni verða á afgreiðslu mála vegna stöðugrar aukningar í fjölda mála. Í tilkynningunni kom fram að málafjöldi hefði þrefaldast frá því að stofnunin var sett á laggirnar um aldamótin en þrátt fyrir það hefði starfsmönnum stofnunarinnar ekki fjölgað. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir