Áhætta vegna vægis erlendra lána ferðaþjónustu

Ferðamenn á flakki.
Ferðamenn á flakki. mbl.is/Golli

Þrátt fyrir að undirliggjandi tekjur ferðaþjónustunnar á Íslandi séu mestmegnis í erlendri mynt eru lán íslensku bankanna til fyrirtækja í ferðaþjónustu að mestu leyti í krónum. Þetta getur skapað áhættu að sögn Konráðs S. Guðjónssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka. 

„Við teljum að þetta sé eitthvað sem ferðaþjónustufyrirtæki og bankarnir megi velta fyrir sér. Síðustu tölur sýna að 19% af lánum íslenska bankakerfisins eru í erlendri mynt og miðað við að undirliggjandi tekjur fyrirtækjanna í erlendri mynt eru langt yfir 19% má færa rök fyrir því að þetta hlutfall megi vera hærra í einhverjum tilfellum,“ segir Konráð. 

Ferðaþjónustan rukkar oft fyrir þjónustu og vörur í krónum en undirliggjandi tekjur hennar eru engu að síður í erlendri mynt vegna þess að tekjur ferðamanna eru í erlendum myntum.

Eftir því sem gengið styrkist dregur úr eftirspurn eins og hefur til dæmis sést á fjölda gistinátta á hvern ferðamann. Þá getur komið sér vel að skulda í erlendri mynt að sögn Konráðs. 

„Ef þú ert með skuldir í erlendi mynt dragast skuldirnar saman í krónum ef krónan styrkist. Fyrir þá sem eru með hátt hlutfall lána í erlendri mynt hefur það vegið á móti því að ferðamenn eru að dvelja skemur og eyða færri krónum.“

Sveiflujöfnun í sjávarútvegi

Hann segir að sjávarútvegurinn hafi síðustu misseri notið góðs af því að skulda fyrst og fremst í erlendri mynt. Rekstrarskilyrðin séu ekki jafngóð og fyrir fimm árum en á móti því hafi vegið að skuldir í erlendri mynt hafi lækkað í krónum. Þó sé of djúpt í árina tekið að kalla þetta kerfisáhættu. 

„Þetta þýðir ekki að öll fyrirtæki eigi að rjúka til og taka erlend lán en til lengri tíma litið er kannski hægt að takast betur á við sveiflur, bæði uppsveiflur og niðursveiflur, með því að hafa hlutfallið hærra.“

Úr úttekt Arion banka
mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir