GAMMA sektað um 23 milljónir

FME og GAMMA hafa gert samkomulag vegna brotsins.
FME og GAMMA hafa gert samkomulag vegna brotsins. mbl.is/Ómar

Fjármálaeftirlitið og GAMMA Capital Management hf. hafa gert samkomulag um sátt vegna brots GAMMA sem viðurkenndi að hafa fimm sinnum brotið gegn lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði með því að fjárfesta í eignarhlutum og tilkynna ekki FME um fjárfestingarnar. 

Samkomulag var gert um sátt vegna brotsins 25. júlí síðastliðinn en GAMMA féllst á að greiða sekt að fjárhæð 23 milljónir króna. 

Málsatvik eru þau að um er að ræða fimm fjárfestingar tveggja fjárfestingarsjóða í rekstri GAMMA. Fjárfestingarnar námu að meðaltali á bilinu 0,44% til 2,9% af heildareignum viðkomandi sjóða. Annar sjóðurinn eignaðist hinn 2. mars 2016 eignarhluti í tilteknu einkahlutafélagi en eignarhlutirnir voru hluti af uppgjöri á skuldabréfi í eigu nokkurra sjóða í rekstri GAMMA þar sem skilmálar skuldabréfs kváðu á um heimild til að fá tiltekinn hluta skuldarinnar greiddan með eignarhlutum í félaginu. GAMMA seldi síðan eignarhlutina 14. desember 2016. 

Báðir sjóðirnir hafa frá því á þriðja ársfjórðungi 2014 farið með eignarhluti í öðru einkahlutafélagi en 4. apríl 2017 óskaði GAMMA eftir fresti til úrbóta í kjölfar fyrirspurna FME um fjárfestingarnar. Með tilliti til hagsmuna hlutdeildarskírteinishafa veitti FME frest til 6. júní og voru viðeigandi úrbætur gerðar innan þess tíma með þeim hætti að einkahlutafélaginu var breytt í hlutafélag á aðalfundi félagsins. GAMMA tilkynnti FME ekki framangreindar fjárfestingar en óskaði eftir því að ljúka málinu með sátt. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir