Leitir á Google gefa vísbendingar um markaðinn

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs.
Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs. Ljósmynd/Aðsend

Leitarfyrirspurnir á Google sýna að undanfarin ár hafi áhugi á fasteignakaupum vaxið hlutfallslega meira en áhugi á húsnæðisleigu. Hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði segir að niðurstöðurnar geti bent til þess að fólk sem sé að huga að því að skipta um íbúð horfi í meiri mæli til fasteignakaupa. 

„Maður myndi ætla að það að fólk leiti að orðum tengdum fasteignakaupum sé eitt af fyrstu skrefunum áður en það skoðar fasteignamarkaðinn af alvöru og ræðst í kaup. Leitarfyrirspurnir geta gefið vísbendingu um áhuga fólks á fasteignamarkaðinum,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. 

Íbúðalánasjóður hélt á dögunum hádegisfund um fast­eigna­markaðinn. Þar voru leiddar líkur að því að afar ólík­legt væri að fast­eigna­verð héldi áfram að hækka jafnhratt og það hefði gert að und­an­förnu en einnig væri verðlækkun ólíkleg.

Meðal annars voru kynntar tölur yfir hlutfallslegt vægi leitarfyrirspurna, annars vegar eftir fasteignakaupum og hins vegar eftir leigu. Þær sýna að fyrirspurnir um leigu höfðu meira vægi á árunum eftir hrun fram að 2012 þegar fyrirspurnum um fasteignir tók að fjölga hlutfallslega meira.  

„Við sjáum að árið 2012 verða vatnaskil, þá byrjar leitarfyrirspurnum tengdum fasteignakaupum á Google að fjölga og hefur þeim fjölgað stöðugt síðan. Samhliða hefur leitarfyrirspurnum tengdum leigu fækkað hlutfallslega. Ein túlkun er að fólk sem er að huga að því að skipta um íbúð sé frekar að hugsa um að kaupa sér íbúð en að leigja nýja íbúð.“

Úr úttekt Íbúðalánasjóðs.
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir