Túlkun FME hamlandi fyrir atvinnulífið

GAMMA hvetur Fjármálaeftirlitið til að endurskoða túlkun sína á lögunum
GAMMA hvetur Fjármálaeftirlitið til að endurskoða túlkun sína á lögunum mbl.is/Ómar Óskarsson

Ágreiningur er upp á milli GAMMA og Fjármálaeftirlitsins varðandi túlkun eftirlitsins á því hvort fjárfestingarsjóðum sé heimilt að fjárfesta í einkahlutafélögum. GAMMA telur að túlkun eftirlitsins sé hamlandi fyrir atvinnulífið og hvetur FME til að endurskoða túlkunina. 

Lög um fjárfestingarsjóði leggja ekki bann við fjárfestingum í einkahlutafélögum, en FME hefur aftur á móti túlkað lögin þannig að fjárfestingar í einkahlutafélögum séu óheimilar en fjárfestingar í hlutafélögum heimilar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA vegna fréttar um samkomulag GAMMA og FME vegna brots GAMMA á lögum um verðbréfasjóði.

GAMMA hefur mótmælt þessari túlkun og telur að það sé mjög hamlandi fyrir atvinnulífið að sjóðir sem hafa heimildir til að fjárfesta í fyrirtækjum fyrir sparnað landsmanna geti aðeins fjárfest í hlutafélögum en ekki einkahlutafélögum, enda ræður tilviljun því oft hvort félagaformið er valið, að þvi er fram kemur í tilkynningu frá GAMMA. 

Sjóðir á vegum GAMMA fjárfestu í Skeljungi í gegnum eignarhaldsfélag sem var í formi einkahlutafélags og nýsköpunarfyrirtækju8num Atmo Select ehf. og Kerecis ehf. Fjárfestingarnar námu að meðaltali á bilinu 0,44% til 2,3% af heildareignum viðkomandi sjóða. 

Þau þrjú félög sem sjóðir GAMMA fjárfestu í hefðu allt eins getað verið í formi hlutafélaga og rekstur þeirra ber öll einkenni hlutafélaga, en um er að ræða félög í fullum rekstri með fjölda hluta. 

Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að sjóðir GAMMA séu ekki einu sjóðirnir sem fjárfest hafa í einkahlutafélögum en fyrr í sumar gerði annað félag sátt við FME um greiðslu sektar vegna samskonar tilviks. Með vísan til þess fordæmis var það mat GAMMA að æskilegt væri að ljúka málinu með sátt við FME.

Að mati GAMMA felur þessi fordæmisgefandi ákvörðun eftirlitsins í sér of víðtækar takmarkanir á heimildum sjóða til fjárfestinga. Hún getur þar af leiðandi gengið gegn hagsmunum sjóðsfélaga sem eru samansettir af almenningi í landinu, stofnanafjárfestum og fyrirtækjum. Takmarkanir af þessu tagi hamla að auki fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Þar af leiðandi hvetur GAMMA Fjármálaeftirlitið til að endurskoða þessa túlkun sína á lögunum í tilkynningunni. 

Hér að neðan er hægt að nálgast samkomulögin sem Fjármálaeftirlitið hefur gert á grundvelli þeirrar túlkunar sem GAMMA hvetur eftirlitið til að enduskoða. 

Samkomulag um sátt vegna brots GAMMA Capital Management hf.

Samkomulag um sátt vegna brots  Stefnis hf. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir