Stjórnendur hækka minnst í launum

Frá framkvæmdum við Einholtsreitinn.
Frá framkvæmdum við Einholtsreitinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun á almenna markaðnum hækkuðu um 6,2% á milli 2. ársfjórðungs 2016 og sama tíma 2017. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu mest en minnst var hækkunin var hjá stjórnendum.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar kemur fram eins og áður segir að laun á almenna markaðnum hafi hækkað um 6,2% á milli ára. Á sama tíma hafi laun á opinbera markaðnum hækkað alls um 7,7%, 7,4% hjá starfsmönnum ríkisins og 8,1% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Hækkun einstakra starfsstétta milli sömu tímabila hafi verið á bilinu 5-7%. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu mest, eða um 7,7% en minnsta hækkunin var hjá stjórnendum, 5,2%.

Séu tölur skoðaðar eftir atvinnugreinum skera þrjár greinar sig nokkuð, flutningar og geymsla, byggingarstarfsemi og verslun, en þessar greinar standa næst þenslunni í hagkerfinu. Laun í veitustarfsemi hækkuðu minnst, eða um 4,2%, sem er langtum minna en hækkun launavísitölunnar á sama tímabili að því er kemur fram í greiningunni. 

Þá segir að vegna lágrar og stöðugrar verðbólgu hafi kaupmáttur launa aukist jafnt og þétt í takt við hækkun nafnlauna og verið í sögulegu hámarki síðustu 3 mánuði. Kaupmáttur launa sé nú um 5% meiri en fyrir ári.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir