Flugfélögin orðin hlekkur í stöðugleika

Tvöfaldur regnbogi á Keflavíkurflugvelli.
Tvöfaldur regnbogi á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert annað þróað ríki reiðir sig í jafnmiklum mæli á tekjur af farþegaflutningum og Ísland. Vekur sú staðreynd spurningu um hvort flugfélögin séu orðin kerfislega mikilvæg fyrirtæki fyrir efnahagslegan stöðugleika í svipuðum skilningi og stóru viðskiptabankarnir þrír eru fyrir fjármálastöðugleika.

Flugframboð var meðal málefna á ferðaþjón­usturáðstefnu Lands­bank­ans sem fór fram í Hörpu í dag. Hlutfall farþegaflutninga af útflutningi nam 13,1% hér á landi árið 2015 en aðeins í Tadjikistan er hlutfallið hærra. Þar er landsframleiðsla um 1.000 Bandaríkjadalir á mann, samanborið við 51.000 Bandaríkjadali á Íslandi.

Samkvæmt greiningu hagfræðideildar Landsbankans er fjölgun flugferða áhrifamesta leiðin til að fjölga ferðamönnum. Er hún talin áhrifameiri en fjöldi flugsæta í boði, fjöldi flugfélaga og frá hversu mörgum flugvöllum var flogið í beinu flugi til viðkomandi áfangastaðar.

Útlit fyrir aukið framboð

Árið 2016 voru alls skráðar 45.771 brottför og lending í millilandaflugi sem er 178% aukning frá árinu 2009, en að meðaltali fjölgaði lendingum og brottförum árlega um 16% á tímabilinu.

Árið 2010 tóku að meðaltali 24 flugvélar í millilandaflugi á loft frá Keflavíkurflugvelli á hverjum degi en í fyrra var sú tala komin upp í 63 flugtök á hverjum degi. Telur hagfræðideildin að útlit sé fyrir að framboð á flugferðum til Íslands muni halda áfram að aukast.

Icelandair og WOW air eru með langmestu markaðshlutdeildina. Á tímabilinu janúar til október 2017 voru félögin með tæplega 82% af sætaframboði í flugi til og frá landinu. Hlutdeildin í Ameríkufluginu er enn hærri eða yfir 90%. Það erlenda flugfélag sem kemst næst er Easyjet með tæplega 4% hlutdeil en alls skipta 23 erlend félög með sér um 18% markaðshlutdeild. 

Vægið útheimti ráðuneyti

Borin var upp sú spurning um hvort að Icelandair og Wow air séu þá ekki orðin kerfislega mikilvæg fyrirtæki fyrir efnahagslegan stöðugleika í svipuðum skilningi og stóru viðskiptabankarnir þrír eru skilgreindir kerfislega mikilvægir fyrir fjármálastöðugleika.

Í framhaldinu var spurt hvort að málefni ferðaþjónustunnar, í þessu ljósi, væru svo mikilvæg að eitt ráðuneyti ætti eingöngu að vera helgað ferðaþjónustu.

Grein­ing Lands­bank­ans á ís­lenskri ferðaþjón­ustu

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir