Lög og dómstólar verði í höndum einkaaðila

David D. Friedman hélt fyrirlestur á ráðstefnu Frjálslyndra framhaldsskólanema á ...
David D. Friedman hélt fyrirlestur á ráðstefnu Frjálslyndra framhaldsskólanema á dögunum. mbl.is/Eggert

„Í síðustu bók minni Future Imperfect, þar sem ég lít á mismunandi tæknibyltingar sem gætu átt sér stað, eru sumar sem gætu haft slæmar afleiðingar. Ég flutti í framhaldinu fyrirlestur hjá Google þar sem ég sagði að þrenns konar tæknibyltingar gætu þurrkað mannkynið hraðar út en hlýnun jarðar, en það eru gervigreind, líftækni og nanótækni,“ segir hagfræðingurinn, eðlisfræðingurinn og lögspekingurinn dr. David D. Friedman sem kom og flutti m.a. erindi á svæðisráðstefnu Félags frjálslyndra framhaldsskólanema, European Students For Liberty, um síðustu helgi.

„Ef við ræðum gervigreindina, þá vitum við enn ekki mikið um hvað við mennirnir erum, en líklega erum við hugbúnaður keyrður á vélunum sem heilinn á okkur er. Það virðist líklegri skýring en margar aðrar. Sé það rétt má gera ráð fyrir að eftir því sem við verðum betri í að skrifa hugbúnað og framleiða vélar verðum við bráðlega með tölvur sem hafa mannlega vitsmuni. Ef það gerist, og eftir því sem tölvurnar verða hraðari og öflugri, þá gæti það gerst að við yrðum að deila plánetunni með fyrirbærum sem væru gáfaðri og sterkari en við sjálf,“ segir David ennfremur.

David er þekktastur fyrir bók sem hann gaf út árið 1973 og heitir The Machinery Of Freedom. Hún lýsir samfélagi sem er drifið áfram af frjálsri samvinnu einstaklinga og stofnana í einkaeigu, án afskipta eða tilvistar ríkisvalds. Síðari viðbætur við þá bók innihalda m.a. sjónarhorn á möguleg áhrif fólksfjölgunar, hlýnunar jarðar, dulkóðunar og tækniframfara.

Heimur án ákæruvaldsins

Erindið sem David flutti á ráðstefnunni kallast Feud Law: The Logic of Private, Decentralized Law Enforcement þar sem hann kynnti til sögunnar möguleikann á því að hafa lögin, dómstólana og framkvæmd laganna dreifða í höndum einkaaðila í staðinn fyrir að hafa þau miðstýrð hjá ríkisvaldinu. Feud Law séu lög til úrlausnar ágreiningi á milli einkaaðila, því sé ekki um neitt ákæruvald að ræða.

Ef aðili hafi gert á hlut annars, þá eignist tjónþolinn kröfu á hann, ellegar hljóti hann refsingu úr hendi tjónþolans. Kröfurnar sem kerfið þurfi að standast til að ganga upp séu fjórar.

Krafan úr hendi tjónþolans þurfi að vera réttmæt til að koma í veg fyrir misbeitingu. Krafan um refsingu þurfi að ná fram að ganga gagnvart tjónvaldinum ef hann greiðir ekki kröfuna. Það verði að vera mögulegt að verja rétt hinna veikari. Það verði að vera hægt að leysa ágreininginn varanlega til að koma í veg fyrir „hjaðningavíg“. Eins sé nauðsynlegt að nægilega margir aðilar séu til staðar sem geta tekið hlutlausa afstöðu gagnvart ágreiningsmálum.

David er mjög hrifinn af íslenska þjóðveldinu sem hann segir að hafi stuðst við svipað kerfi og hann lýsir og hann segir m.a. að íslenska þjóðveldið hafi ríkt lengur en Bandaríkin hafa verið til.

Adam frá Brimum sagði um Íslendinga að fornu að þeir hefðu engan konung nema lögin. Tilgáta Davids um það hvers vegna íslenska þjóðveldið leið undir lok á Sturlungaöld sé sú að of stór hluti þjóðarinnar hafi verið búinn að skipta sér upp í lið þannig að ekki hafi verið nægilega margir hlutlausir aðilar til að leysa eðlilega úr ágreiningsefnum eða framkvæma innheimtu krafna og refsingar í deilumálum.

Spilar World of Warcraft

David er afar áhugasamur um dulkóðunartækni og telur að ef almenningur tileinkar sér notkun á opnum og lokuðum dulkóðunarlyklum geti fólk fengið að vera í friði fyrir hnýsnum stjórnvöldum bæði með samskipti sín og viðskipti í gegnum netið og með því að nota blockchain, kerfið sem rafmyntir á við bitcoin nota.

David er jafnframt mikill áhugamaður um forn lög og framkvæmd þeirra. Hann og konan hans Betty eru einnig áhugasöm um miðaldir og elda gjarnan fornar mataruppskriftir og hafa gefið út miðaldamatreiðslubók.

Þau hjúin spila World of Warcraft á netinu, sem er stærsti netleikur heims á eftir EVE-online.

„Ég hef ekki prófað að spila EVE ennþá, en mér finnst það spennandi þar sem um anarkó-kapítalíska hliðarveröld er að ræða,“ segir David, en kveðst þó ekki hafa mikinn tíma aflögu til að spila þessa dagana.

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir