372 milljarða þarf í innviði landsins

Horft yfir Reykjavíkurhöfn.
Horft yfir Reykjavíkurhöfn. mbl.is/RAX

Meiri háttar hindranir koma í veg fyrir að hafnir og innanlandsflugvellir á Íslandi geti uppfyllt kröfur og þarfir eftir 10 ár. Uppsöfnuð viðhaldsþörf helstu innviða landsins er metin 372 milljarðar króna og verða einkaaðilar að koma að uppbyggingunni þar sem hið opinbera getur ekki eitt og sér ráðist í svo stórar framkvæmdir. 

Þetta kemur fram í skýrslu um ástand og framtíðar­horf­ur innviða á Íslandi sem verður kynnt á opnum fundi Samtaka Iðnaðarins í dag. 

Eins og titill skýrslunnar gefur til kynna skoðuðu höfundar hennar innviði frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar núverandi ástandi en hins vegar framtíðarhorfur þeirra. Að meðaltali fá innviðir sem skýrsl­an nær til ástand­s­ein­kunn­ina 3,0 en ein­kunna­gjöf­in er á bil­inu 1 til 5. Miðað við þessa ein­kunn er staða innviða á Íslandi að meðaltali viðun­andi, að mati skýrslu­höf­unda, en ekki góð. 

Verst er ástand vega og fráveitna en ástandseinkunn þeirra er 2. Hitaveitur og orkuvinnsla eru einu innviðirnir sem fá ástandseinkunn 4 sem merkir að staða mannvirkisins sé góð og að eðlilegt viðhald þurfi til að halda stöðu þess óbreyttri. Engin tegund innviða fær hæstu einkunn sem þýðir að ekki sé þörf fyrir umtalsvert viðhald fyrr en að mörgum árum liðnum.

Úr skýrslunni

Ólíkar framtíðarhorfur

Við mat og einkunnagjöf á framtíðarhorfum voru notaðar græn ör, gul og rauð. Hafnir og innanlandsflugvellir koma verst út og fengu bæði rauða ör. Þetta þýðir að meiri háttar hindranir takmarki getu þessara innviða til að uppfylla kröfur og þarfir ársins 2027.

Græna ör fá hins vegar fráveitur, hitaveitur, orkuvinnsla, orkuflutningar, sveitarfélagavegir, úrgangsmál og Keflavíkurflugvöllur en það merkir að fyrirhugaðar séu fjárfestingar í viðkomandi innviðum sem geri það að verkum að þeir muni mæta kröfum og þörfum eftir 10 ár.

Nemur 15% af landsframleiðslu

Heildarendurstofnvirði ofangreindra innviða er áætlað 3.493 milljarðar króna en með því er átt við kaupverð eða kostnaðarverð sambærilegra innviða með sömu framleiðslu og/eða þjónustugetu. Til samanburðar stóðu heildareignir lífeyrissjóða landsmanna í 3.725 milljörðum króna í lok júlí 2017. 

Uppsöfnuð viðhaldsþörf ofangreindra innviða er metin 372 milljarðar króna sem nemur 15,4% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs eða tæplega 11% af endurstofnvirði. Telja skýrsluhöfundar að einkaaðilar verði að koma að uppbyggingu innviða. Hið opinbera geti ekki eitt og sér staðið að framkvæmdum upp á hundruð milljarða á næstu árum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK