Thaler fær Nóbelsverðlaunin í hagfræði

Bandaríski hagfræðingurinn Richard Thaler, prófessor við Chicaco-háskólann, hlaut í dag Nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir framlag sitt til atferlishagfræði. Hann hefur verið brautryðjandi í greininni og skrifað fjölda bóka um efnið. 

Í tilkynningu á heimasíðu Nóbelsverðlaunanna segir að Thaler hafi innleitt sálfræðilega og raunhæfar forsendur í hagfræðina. Þannig hafi hann brúað bilið hagrænnar og sálrænnar greiningar á ákvarðanatöku einstaklinga. 

„Rannsóknir hans hafa hjálpað til að skapa hina nýju og sívaxandi grein atferlishagfræðinnar, sem hefur haft djúpstæð áhrif á hagrænar rannsóknir og efnahagsstefnu.“  

Meðal þess sem rannóknir Thalers hafa varpað ljósi á er hvers vegna svo erfitt er að standa við áramótaheitin sín. Hann smíðaði líkan um ákvarðanir til skamms og langs tíma sem lýsir því hvernig langtímaáætlanir og skammtímagjörðir takast á, til dæmis lífeyrissparnaður og freistingar í núinu.  

Þá hefur Thaler sýnt að sanngirni spili stórt hlutverk í ákvarðanatöku. Fólk sé reiðubúið að neita sér um veraldleg gæði til þess að viðhalda sanngjarnri dreifingu gæða. Það sé einnig reiðubúið að taka á sig kostnaðinn við að refsa þeim sem fari gegn grundvallarreglum um sanngirni, ekki aðeins þegar það sjálft líði fyrir heldur einnig þegar það sjái aðra bera skaða. 

Richard Thaler nóbelsverðlaunahafi.
Richard Thaler nóbelsverðlaunahafi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK