Of langt gengið við húsleit

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hann [Seðlabanki Íslands] getur bara beðið um húsleit og punktur basta. Og þessu var öllu stjórnað af sérstökum saksóknara, hvernig ætti að bera sig að. Og mér sýnist, bara svona okkar á milli, að kannski hafi verið gengið þar allt of langt.“ Með þessum orðum lýsir Már Guðmundsson seðlabankastjóri afstöðu sinni til húsleitar sem gjaldeyriseftirlit Seðlabankans réðst í þann 27. mars árið 2012 á skrifstofum útgerðarfélagsins Samherja í Reykjavík og á Akureyri.

Upptakan á ábyrgð Þorsteins

Orðin lét seðlabankastjóri falla í samtali sem hann átti við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, símleiðis. Upptaka af símtalinu var birt í þættinum Atvinnulífið á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi. Í þættinum, sem var í tveimur hlutum og fyrri hlutinn sýndur á þriðjudag í síðustu viku, er farið yfir ýmis þau mál sem tengjast starfsemi gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á árunum eftir hrun. Í upphafi þáttarins var sérstaklega tekið fram að upptakan sem um ræðir væri alfarið á ábyrgð Þorsteins Más sjálfs.

Í bréfi sem einnig er birt í þættinum og Seðlabankinn sendi embætti sérstaks saksóknara sex dögum fyrir húsleitina kemur skýrt fram í efnisorðum að óskað sé aðstoðar embættisins við húsleit á grundvelli laga um gjaldeyrismál. Þar kemur einnig fram að „Seðlabanki Íslands áformar húsleit hjá Samherja hf. og tengdum félögum vegna gruns um meint brot gegn lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál...“

„Seðlabankinn kann alveg að reikna einfaldar prósentur“

Í upptökunni ræða Þorsteinn Már og Már einnig um niðurstöðu héraðsdóms í ógildingarmáli sem Samherji höfðaði gegn Seðlabankanum í kjölfar þess að bankinn lagði 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið. Þar segir seðlabankastjóri að niðurstaða dómstólsins sé „umdeild“ og ekki „traust“ og að af þeirri ástæðu sé nauðsynlegt að skjóta málinu til Hæstaréttar. Hins vegar viðurkennir hann að þeir útreikningar sem bankinn studdist við þegar ákveðið var að ráðast í húsleit hjá fyrirtækinu hafi hugsanlega verið rangir. „Seðlabankinn kann alveg að reikna einfaldar prósentur, þó að það sé hugsanlegt að einhver lögfræðingur í gjaldeyriseftirlitinu hafi gert mistök í upphafi.“

Í fyrrnefndum þætti segir Hreiðar Eiríksson lögfræðingur, sem starfaði á vettvangi gjaldeyriseftirlits SÍ þegar ráðist var í húsleitina, að lögfræðingur hafi ekki unnið útreikningana fyrir bankann. Hins vegar hafi þeir lagt fram kæruna á grundvelli þeirra.

„Það er óhætt að segja að sú trú sem við höfðum á þeim [útreikningunum] þegar við lögðum fram þessar kærur, hún hafði minnkað og horfið þangað til kærurnar voru dregnar til baka og þess vegna voru þær dregnar til baka.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir