Bráðum hægt að selja húsið á Blockchain

Kristinn Steinar Kristinsson, sérfræðingur á hugbúnaðarsviði Nýherja
Kristinn Steinar Kristinsson, sérfræðingur á hugbúnaðarsviði Nýherja mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristinn Steinar Kristinsson segir að Blockchain muni bylta samfélaginu, rétt eins og internetið. Eignir og fjármunir verði færðir milli aðila án milligöngu þriðja aðila, með fullkomnu gegnsæi og öryggi. Á íslensku hafa heitin Raðreitatækni og Keðjan verið notuð um Blockchain.

„Þetta klípur svo mikla fitu af kerfinu eins og það er núna, og þessvegna segi ég að Blockchain muni bylta samfélaginu á svipaðan hátt og internetið gerði,“ segir Kristinn Steinar Kristinsson í samtali við ViðskiptaMoggann en hann starfar sem sérfræðingur hugbúnaðarlausna hjá Nýherja. Hann heldur erindi um efnið á upplýsingafundi Samtaka verslunar og þjónustu í hádeginu í dag, fimmtudag.

Kristinn segir að tæknin muni breyta mjög miklu um hvernig viðskipti verða gerð yfir netið í framtíðinni, hvernig eignatilfærslur fara fram, skráning eignaréttar og færsla fjármuna. Rekjanleiki verði allur annar, og það muni til dæmis auðvelda alla flutningastarfsemi og verslun sem dæmi. „Wal Mart skráir til dæmis allar Mango ávaxtasendingar á Blockchain. Þannig geta þeir rakið uppruna sendinganna á tveimur sekúndum, í staðinn fyrir að eyða í það sjö dögum,“ segir Kristinn.

Af hverju er rekjanleikinn svona miklu betri?

„Það er af því allur varningurinn sem er fluttur og endar í verslunum, er skráður í Blockchain, og allir aðilar sjá allt sem þar er skráð. Þannig er gegnsæið tryggt, því allir hafa afrit af skráningunum. Öryggið snýst um þetta samkomulag allra hagsmunaaðila um að nota Blockchain, þá sitja allir við sama borð.“

Kristinn segir að allt varðandi tolla, þinglýsingu og stimpilgjöld geti heyrt sögunni til á næstu árum. Milliliðurinn verði óþarfur þegar öryggið og rekjanleikinn er jafn mikill og boðið er upp á í Blockchain. „Allir aðilar sem koma að kerfinu, viðskiptavinur, framleiðandi, flutningsaðili og eftirlitsaðili vinna saman að því að stimpla inn sínar upplýsingar og allir sjá allt frá öllum.“

Samningar vakta sig sjálfir

Annað dæmi sem Kristinn nefnir eru snjallsamningar, sjálfvirkir samningar sem lifa sínu eigin lífi í Blockchain. „Ef þú til dæmis greiðir ekki fjarskiptareikninginn á tilsettum tíma þá slokknar sjálfvirkt á þjónustunni. Kerfið vaktar sig sjálft. Annað dæmi er að ef eitthvað bilar í bílnum þínum ferðu með hann á verkstæði og þar sjá menn á Blockchain hvort hann er í ábyrgð. Gert er við bílinn og greiðslur fara fram samstundis. Ferlið verður miklu skilvirkara.“

Kristinn segir að rétt eins og internetið gerði fólki kleift að senda tölvupóst, og útrýma þar með tímafrekum bréfpóstsendingum, þá muni Blockchain gera fólki kleift að senda fjármuni eins og tölvupóst. „Þú þarft ekkert að fullvissa þig um að mótaðilinn sé í einhverjum bankaviðskiptum einhvers staðar. Ég ber ábyrgð á mínum fjármunum og þú á þínum. Blockchain sýnir að við eigum fyrir þessari millifærslu. Enginn þriðji aðili kemur nálægt þessu. Öryggið og gegnsæið er fullkomið. Þess verður ekki langt að bíða að þú seljir húsið og bílinn á Blockchain án milliða, eins og bílasala og fasteignasala.“

Kristinn tekur dæmi af eignaskráningu á Blockchain sem nú þegar er komin til framkvæmda. „Í Georgíu eru allar landareignir komnar í Blockchain. Þar með er orðið miklu auðveldara fyrir einstaklinga að sanna eignarhald sitt á landi. Allir vita hver á hvað og allir eru sammála. Yfirvöld geta ekki breytt upplýsingunum. Blockchain heldur skrá yfir allar færslur sem gerðar hafa verið í kerfinu og skráin er rétt. Það er nær útilokað að hægt sé að falsa neitt. Þetta er 100% öruggt hvað það varðar. Ef allir eru með afrit og allir eru sammála um að skráin sé rétt, þá ertu kominn með kerfi þar sem þú þarft ekki einu sinni að treysta neinum.“

En afhverju getum við verið sannfærð um þetta mikla öryggi?

„Þetta er byggt á gömlum og góðum aðferðum. Í raun er þetta bara stærðfræði og dulkóðun. Auðvitað eru ekki allir jafn sannfærðir um Blockchain og ég. Til dæmis mun bankageirinn missa spón úr aski sínum þegar hann getur ekki rukkað sín þjónustugjöld, þegar fjármunir fara beint á milli aðila án þeirra aðkomu. Því streitast menn þar á móti.“

Bitcoin ekki til án Blockchain

Eitt af því sem er reglulega rætt í sömu mund og Blockchain er rafmyntin Bitcoin, sem varð til árið 2008. Saga Blockchain nær hinsvegar allt aftur til ársins 1991 að sögn Kristins. „Blockchain fór á flug með tilkomu Bitcoin. Til að setja þetta í samhengi þá geturðu ekki sent tölvupóst án internetsins, og til samanburðar þá geturðu ekki sent Bitcoin nema nota Blockchain.“

Kristinn segir að Blockchain lifi á milljónum tölva um allan heim. Um sé að ræða samtengda gagnagrunna, og ekki sé hægt að breyta á einum stað án þess að það uppfærist alls staðar í kerfinu, og allar tölvurnar þurfa að vera „sammála“ til að færsla geti átt sér stað. Þannig fáist kerfi með slíku öryggi. Ekki sé um miðlægan gagnagrunn að ræða sem hægt sé að hakka sig inn í. „Þetta er mjög stórt kerfi sem kostar mikið að reka. Ef ég ætlaði mér að hakka Blockchain þá þyrfti ég að hakka mig inn í meira en helming allra þessara milljóna tölva sem kerfið lifir á.“

Kristinn segir að um ein til tvær milljónir dollara, eða um 180 milljónir króna, séu greiddar hér á landi á mánuði í raforku við að keyra íslenskar tölvur sem keyra Bitcoin á Blockchain.

„Þessar tölvur, svokallaðar nóður, eru fjölmargar hér á landi.“

En hver borgar þennan kostnað?

„Bitcoin-samfélagið borgar hann. Bitcoin verða ekki fleiri en 21 milljón. Í dag eru til tæplega 17 milljónir. Það eru tölvur um allan heim í „námagreftri“ að grafa eftir þessum 4 milljón Bitcoin sem eftir eru. Árið 2140 verða öll Bitcoin fundin. Tölvurnar gera þetta með því að leita svara við ákveðnum „spurningum“ og ef giskað er á rétt færðu greiddar rúmlega sex miljónir króna. Þó þú greiðir mikið fyrir rafmagnið, þá borgar það sig, því þú græðir peninga fyrir þetta á móti.“

Hvað er langt í að notkun Blockchain verði útbreidd hér á landi?

„Ég hugsa að fyrirtæki fari að prófa sig áfram og verði komin með þetta í gang innan 3 – 5 ára. Almenningur og viðskiptavinir taka kannski ekki eftir því fyrst um sinn, en fyrirtækin eru að hagræða með þessu, til dæmis með því að setja bókhaldið á Blockchain. Flutningageirinn mun hinsvegar verða í fararbroddi því þetta mun einfalda allt varðandi tolla og stimpilgjöld, auk rekjanleikans og öryggisins sem fylgir tækninni.“

Kristinn nefnir dæmi um viðskipti með demanta. „Til að tryggja að ekki sé um svokallaða blóðdemanta að ræða eru demantaviðskipti skráð á Blockchain, sem útilokar öll svik.“

Góðgerðarfélög millifæra á Blockchain

Kristinn segir að tæknin sé þegar farin að bylta bankakerfinu. „Ef ég sendi pening til útlanda tekur það mig hálftíma á milliliðalausan hátt á Blockchain, og kostar mig einn dollara. Með hefðbundinni leið tekur það þrjá daga og bankinn tekur kannski um 10%.“

Kristinn segir að góðgerðarfélög séu til dæmis farin að senda peninga til Afríku á Blockchain vegna þessa.

Hann segir að tæknin bjóði upp á gríðarleg tækifæri og hvetur íslensk yfirvöld til að sýna þessu áhuga, enda geti Íslendingar markað sér stöðu í framvarðarsveit í notkun og þróun tækninnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK