Tekjur af niðurhali duga skammt

Íslenskir tónlistarmenn eru duglegir að gefa út sína tónlist á ...
Íslenskir tónlistarmenn eru duglegir að gefa út sína tónlist á vínyl. mbl.is/Eggert

Útgáfum hljóðrita hefur fækkað um helming frá því er best lét um miðbik síðasta áratugar og samdráttur í sölu eintaka og verðmæti frá útgefendum og dreifendum hefur verið enn meiri. Ört vaxandi tekjur af niðurhaldi og streymi vega hinsvegar lítið upp á móti. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands en til hljóðrita falla geisladiskar, plötur og snældur. Þar segir að frá aldamótum láti nærri að seldum eintökum hafi fækkað um 87 af hundraði og söluverðmæti hafi lækkað um 80 af hundraði reiknað á föstu verðlagi. 

Árið 2016 seldust hér á landi 112 þúsund eintök geisladiska og hljómplatna samanborið við 868 þúsund eintök árið 1999 er fjöldi seldra eintaka náði hámarki. Frá árinu 2005 hefur seldum eintökum fækkað samfellt eða úr 823 þúsundum árið 2005. Seldum eintökum á íbúa hefur fækkað úr 3,1 árið 1999 í 0,3 árið 2016. 

„Tilkoma sölu hljóðrita í formi stafrænna skráa í niðurhali og streymi hefur þó engan veginn dugað til að vega upp á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu geisladiska og hljómplatna. Frá árinu 2010 er tölur voru fyrst teknar saman um söluverðmæti stafrænna skráa nemur sala þeirra stöðugt stærri hluta af hljóðritasölunni talið í verðmætum, eða frá um sex af hundraði árið 2010 í 60 af hundraði af sölu síðasta árs. “

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir