Tíðar kosningar rífa í ríkiskassann

Á kjörstað vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu.
Á kjörstað vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmd alþingis- og forsetakosninga auk þjóðaratkvæðagreiðslna hafa þegar kostað ríkið tæplega 2,3 milljarða króna frá árinu 2009. Er þá horft fram hjá kostnaði sem fellur til vegna sveitarstjórnarkosninga. Um er að ræða átta kosningar, samkvæmt samantekt dómsmálaráðuneytisins fyrir ViðskiptaMoggann.

Til viðbótar er reiknað með að beinn kostnaður vegna kosninganna 28. október verði um 350 milljónir króna, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu. Er það svipuð fjárhæð og alþingiskosningarnar í fyrra kostuðu. Þá er ótalinn kostnaður sem ríkið þarf að standa straum af vegna biðlauna og nýrra þingmanna.

Það hafa farið fram þrennar kosningar til Alþingis á tímabilinu. Árið 2009 kostuðu þær 241 milljón króna, árið 2013 356 milljónir króna og í fyrra kostuðu þær 349 milljónir á verðlagi hvers árs. Með komandi kosningum eru samanlögð útgjöld vegna þingkosninga því um 1,3 milljarðar króna.

Þrjú mál í þjóðaratkvæði

Á tímabilinu hafa þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur farið fram. Tvær þeirra lutu að Icesave á árunum 2010 og 2011. Sú fyrri kostaði 238 milljónir króna og hin seinni 219 milljónir. Hin þriðja sneri að tillögum stjórnalagaráðs að breyttri stjórnarskrá árið 2012 og kostaði framkvæmdin 253 milljónir króna. Áður en hægt var að blása til þeirra þurfti að velja fólk á stjórnlagaþingið árið 2010. Þær kosningar kostuðu 275 milljónir króna. Samanlagt hafa kosningar í tengslum við breytta stjórnarskrá kostað rúmlega hálfan milljarð.

Þá kostuðu forsetakosningar árið 2016 um 341 milljón króna. Í þessari samantekt er litið fram hjá kostnaði sem fellur til vegna sveitarstjórnarkosninga en þær voru haldnar árið 2010 og 2014 á umræddu tímabili.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir