Með 47 Airbnb-eignir á sínum snærum

Umsvifamesti leigusalinn á Airbnb á Íslandi er með 47 eignir á sínum snærum og námu tekjur hans af leigunni 236 milljónum króna á tólf mánaða tímabili. Þetta kemur fram í frétt Túrista í morgun.

Líkt og fram hefur komið eru á bilinu sex til sjö þúsund íslensk gistirými að jafnaði í boði á vef Airbnb. 273 þeirra eru á vegum þeirra 10 leigusala sem hæstu tekjurnar hafa af útleigu í gegnum Airbnb hér á landi og samtals námu tekjur hópsins rúmum 1,1 milljarði síðastliðna 12 mánuði.

Sá umsvifamesti hefur á þessum tíma fengið greidda leigu upp á 236 milljónir fyrir 47 gistirými og fjórir aðrir leigusalar fengu meira en hundrað milljónir frá Airbnb samkvæmt þeim upplýsingum sem nálgast má í gegnum Mælaborð ferðaþjónustunnar sem Stjórnstöð ferðamála opnaði á föstudaginn. 

Þar kemur einnig fram að velta Airbnb hér á landi var 15,2 milljarðar fyrstu níu mánuði ársins og þar af um tveir milljarðar króna í september. Í þeim mánuði jukust umsvif bandaríska fyrirtækisins um helming á höfuðborgarsvæðinu en rúmlega fjórfölduðust á landsbyggðinni.

Tekjur fyrirtækisins sjálfs af starfsemi sinni á Íslandi hafa því verið rúmlega 450 milljónir fyrstu níu mánuði ársins, því samkvæmt svari Sofiu Gkiousou hjá Airbnb við fyrirspurn Túrista greiðir fyrirtækið 97% af leigunni til leigusalanna eða gestgjafanna eins og þeir eru nefndir innan kerfisins.

Í svari Gkiousou segir jafnframt að leigutekjur hins hefðbundna íslenska gestgjafa séu 1,1 milljón króna á ári og að viðkomandi leigi út í um 60 daga á ári. Vert er að benda á að ekki fást upplýsingar um meðaltekjur íslenskra leigusala hjá Airbnb heldur aðeins tekjur hins „hefðbundna gestgjafa“ og eins fékk Túristi ekki svar við spurningunni um fjölda þeirra sem hafa gist í Airbnb-íbúðum á Íslandi í ár. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir