Sýndarveruleikinn settur á ís hjá CCP

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Arnar Valdimarsson

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP ætlar að setja þróun sýndarveruleikja á hilluna næstu 2-3 árin, loka starfstöð sinni í Atlanta og selja starfstöðina í Newcastle. Í heild munu breytingar fyrirtækisins hafa áhrif á um 100 starfsmenn fyrirtækisins af rúmlega 370, þar af um 30 hér á landi. Hluta þeirra verður þó boðið að færa sig til milli starfstöðva. Starfsfólki CCP var tilkynnt um breytingarnar í dag.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir í samtali við mbl.is að fyrirtækið hafi undanfarin fjögur ár staðið í kröftugri þróun á sýndarveruleikjum og náð þar frábærum árangri. „Flestir leikirnir eru í toppsætum þar sem þeir eru skilgreindir,“ segir hann, en CCP hefur meðal annars gefið út sýndarveruleikina Valkyrie, Gunjack og Sparc.

Sjá fram á ládeyðu næstu 2-3 árin

Þrátt fyrir góðan árangur segir Hilmar að fyrirtækið sjái fyrir sér ákveðna ládeyðu á næstu árum í þessum geira. „Þetta hefur gengið rosalega vel, en nú sjáum við fyrir okkur ákveðna ládeyðu á þessum markaði næstu 2-3 árin,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið ætli ekki að fara í smíði á slíkum leikjum á þeim tíma.

„Við ætlum að einbeita okkur betur að PC-leikjum og farsímaleikjum,“ segir hann, en fyrirtækið byrjaði að þreifa fyrir sér með farsímaleik fyrir um 18 mánuðum.

„Sýndarveruleikinn mun breyta heiminum að lokum“

Þrátt fyrir þessa stefnubreytingu segir Hilmar að CCP hafi ekki misst trú á sýndarveruleikageiranum. „Við höfum trú á sýndarveruleikanum til langs tíma,“ segir hann og bætir við að ný tækni komi jafnan í bylgjum og CCP verði ekki í vandræðum að koma sér aftur framarlega í þessum geira þegar þeir vilji aftur stökkva á vagninn.

Segir hann CCP vera með yfirburðastöðu leikjaframleiðenda á þessum vettvangi, en meðan þeir sjái fyrir sér hægan vöxt á næstu árum þá vilji þeir einbeita sér að mörkuðum sem þeir sjái meiri tækifæri á og setja sýndarveruleikann á ís á meðan. „Sýndarveruleikinn mun breyta heiminum að lokum,“ segir Hilmar þó um framtíðasýn sína á þennan markað.

Gunjack frá CCP er einn þeirra leikja sem fyrirtækið hefur …
Gunjack frá CCP er einn þeirra leikja sem fyrirtækið hefur gefið út og er svokallaður sýndarveruleikaleikur.

Horfa til þróunarinnar í S-Kóreu og Kína

CCP hefur verið með nýsmíði á fimm stöðum í heiminum; Íslandi, Atlanta í Bandaríkjunum, Newcastle í Bretlandi, London í Bretlandi og Sjanghæ í Kína. Sem fyrr segir á að loka starfstöðinni í Atlanta og selja eininguna í Newcastle. Þá á starfsstöðin í Kína að einbeita sér að stuðningi við spilara þar en ekki að vera í beinni leikjaþróun.

Segir Hilmar að nú sé meðal annars unnið að því að gefa út nýja leiki í samstarfi við kínverska framleiðendur, en hann tekur sérstaklega fram að CCP hafi fylgst með þróun farsímaleikja í Kína og S-Kóreu undanfarið. Þar segir hann menn vera farna að spila leiki á farsímum sem séu allt að því jafnflóknir og í PC-tölvum og CCP telji þetta vera þá þróun sem koma skuli á Vesturlöndum á næstu 3-5 árum og horfi fyrirtækið til þess við þróun sinna leikja.

Breytinga stundum þörf ef fyrirtækið á að verða 30 ára

CCP er orðið um 20 ára gamalt fyrirtæki og segir Hilmar að þrátt fyrir þessar breytingar í dag sé hann hvergi banginn þegar komi að leikjageiranum eða hugbúnaðarþróun. „Það er alltaf erfitt að standa í svona aðgerðum en þær eru mikilvægar og ef við viljum að fyrirtækið nái því að verða 30 ára þá þurfum við stundum að gera stefnu- og skipulagsbreytingar,“ segir hann.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK