Gistinóttum fjölgar mest á Suðurnesjum

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 3% í september frá sama mánuði í fyrra. Fjölgunin var mest á Suðurnesjum eða um 10%.  

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Þar segir að um 55% allra gistinátta hafi verið á höfuðborgarsvæðinu eða 209.900, sem sé 3% aukning frá fyrra ári.

„Á Suðurnesjum fjölgaði gistinóttum um 10%, 7% á Vesturlandi og Vestfjörðum og 4% á Suðurlandi. Á Norðurlandi fækkaði hins vegar gistinóttum um 3% en á Austurlandi var fjöldi þeirra sambærilegur og í september 2016.“

Sé litið á tólf mánaða tímabil frá október 2016 til september 2017 fjölgaði gistinótum um 18% miðað við sama tímabil árið áður. Bandaríkjamenn gistu flestar nætur (117.500), síðan Þjóðverjar (38.600) og Bretar (32.900), en gistinætur Íslendinga voru 32.800.

Herbergjanýting lækkaði um 1,7 prósentustig milli septembermánaða og stendur nú í 76%.  Nýtingin var best á Suðurnesjum, eða um 89,5.  Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,3%, mælt í fjölda herbergja.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir