Kortaþjónustan varð fyrir þungu höggi vegna Monarch

AFP

Færsluhirðingarfyrirtækið Kortaþjónustan varð fyrir alvarlegu höggi þegar breska lággjaldaflugfélagið Monarch fór í greiðslustöðvun í byrjun síðasta mánaðar en samhliða því hætti flugfélagið starfsemi. Greiðsluþjónustan var eitt átta fyrirtækja sem sáu um færsluhirðingu fyrir fyrirtækið. Í öllum tilvikum hafa fyrirtækin tekið áhættu með viðskiptunum. Felst hún í því að um leið og greiðsla hefur borist vegna ferða sem enn eru ófarnar, hefur hluta greiðslunnar verið fleytt áfram og á reikninga flugfélagsins. Þegar ferðir Monarch falla nú niður bakfærast hins vegar kaup viðskiptavina þess og færsluhirðingarfyrirtækin sitja uppi með tjón sem nemur hinni bakfærðu upphæð.

Tjónið er víðtækt

Fram hefur komið að greiðslustöðvunin leiddi til þess að 300 þúsund bókunum flugfélagsins var aflýst og aðgerðin hafði áhrif á allt að 750 þúsund manns. Neyddust bresk stjórnvöld til þess að ferja þarlenda viðskiptavini Monarch, sem staddir voru erlendis þegar greiðslustöðvunin var samþykkt, heim á kostnað ríkisins og er hann talinn hlaupa á allt að 60 milljónum punda, jafnvirði 8,3 milljarða króna. Heimildir Morgunblaðsins herma að tjón færsluhirðingarfyrirtækjanna átta sem þjónustuðu Monarch sé á svipuðu róli eða á bilinu 6-8 milljarðar. Blaðið hefur hins vegar ekki fengið staðfest hver hlutdeild Kortaþjónustunnar í þeirri upphæð er. Víst má telja að hún nemi hið minnsta nokkur hundruð milljónum króna.

Þrátt fyrir að höggið hafi reynst mikið er ljóst að Kortaþjónustan hefur tekið tryggingar fyrir viðskiptum sínum við Monarch en að hversu miklu leyti þær dekka ætlað tjón hefur ekki fengist staðfest. Heimildir Morgunblaðsins herma hins vegar að forsvarsmenn fyrirtækisins séu bjartsýnir um að greiðslustöðvunin og aðrar aðgerðir sem bresk stjórnvöld hafa gripið til muni leiða til þess að tjón fyrirtækisins af falli lággjaldaflugfélagsins verði minna en í fyrstu var talið.

FME gert sérstaklega viðvart

Heimildir Morgunblaðsins herma að skömmu eftir að vandræði Monarch komust í hámæli hafi alþjóðlegu kortafyrirtækin VISA og MasterCard sett sig í samband við Fjármálaeftirlitið íslenska vegna stöðu Kortaþjónustunnar. Kortaþjónustan vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Salan tengd erfiðleikunum

Seint á fimmtudagskvöld barst fjölmiðlum tilkynning um að fjárfestingarbankinn Kvika hefði ásamt hópi fjárfesta fest kaup á öllu hlutafé Kortaþjónustunnar. Eftir viðskiptin á Kvika 40% í fyrirtækinu en aðrir fjárfestar allir undir 10% hver.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa margir aðilar, einkum erlendis, sýnt Kortaþjónustunni mikinn áhuga á síðustu misserum og háar fjárhæðir verið nefndar í því sambandi. Hins vegar hafi eigendur fyrirtækisins ekki haft áhuga á að selja það. Það hafi hins vegar breyst eftir að áfallið tengt Monarch raungerðist í upphafi októbermánaðar.

Mikill vöxtur á síðustu árum

Vöxtur Kortaþjónustunnar hefur verið mikill á síðustu árum. Þannig jukust þjónustutekjur fyrirtækisins á árinu 2016 um 143% frá árinu á undan og námu 2,3 milljörðum króna. Nam þannig hagnaður félagsins 626 milljónum króna í fyrra en mikill meirihluti þess hagnaðar var tilkominn vegna hlutdeildar fyrirtækisins í söluhagnaði sem skapaðist þegar VISA Europe var selt til VISA Inc. Í árslok í fyrra námu heildareignir Kortaþjónustunnar tæpum 1,9 milljörðum króna en skuldir hennar námu á sama tíma 660 milljónum. Eigið fé nam ríflega 1,1 milljarði. Því var eiginfjárhlutfall fyrirtækisins níu mánuðum fyrir skakkaföllin 65%. Eigendur fyrirtækisins eru Ortak ehf. og Helga Sig. ehf., sem halda bæði beint á hlut í félaginu og í gegnum félagið EC-Clear ehf. Helga Sig. ehf. er í eigu Gunnars M. Gunnarssonar, forstöðumanns hugbúnaðarsviðs fyrirtækisins, en Ortak ehf. er í eigu hjónanna Andreu Kristínar Jónsdóttur og Jóhannesar Inga Kolbeinssonar, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK