Alvogen tekur dótturfélag af markaði

Höfuðstöðvar Alvogen.
Höfuðstöðvar Alvogen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alvogen Korea, dótturfélag Alvogen, hefur boðið minnihlutaeigendum að selja bréf sín í því skyni að afskrá félagið af hlutabréfamarkaðinum í Suður-Kóreu. Talið er að kaupin muni kosta Alvogen Korea rúma þrjá milljarða íslenskra króna. 

Greint er frá þessu á suður-kóresku fréttasíðunni Pulse

Alvogen keypti meirihluta í kóreska lyfjafyrirtækinu Kunwha Pharmaceuticals árið 2012 og nafni þess fyrirtækis var síðar breytt í Alvogen Korea eftir sameiningu við annað fyrirtæki, Dream Pharma. Alvogen á einnig meirihluta í Lotus Pharmaceuticals sem skráð er í Tapai. 

Í svari frá Alvogen við fyrirspurn mbl.is. segir að niðurstaða tilboðsins muni liggja fyrir næstunni en ástæða afskráningarinnar sé að vera með eitt félag skráð á Asíumarkaði. 

Í síðustu viku var Alvogen fyrst lyfjafyrirtækja á markað í Bandaríkjunum með nýtt samheitalyf fyrir flensulyfið Tamiflu (Oseltamivir phosphate) í mixtúruduftformi. Árleg sala frumlyfsins Tamiflu á Bandaríkjamarkaði er áætluð um 33 milljarðar íslenskra króna.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir