Erlent fjármagn flæðir inn í Kauphöllina

Erlend fjárfestingarfyrirtæki eiga að minnsta kosti 41 milljarð króna í Kauphöll Íslands en fyrir tveimur árum stóð upphæðin í rúmum 15 milljörðum. Innflæðið á íslenska hlutabréfamarkaðinn síðustu tvö ár nemur því 26 milljörðum sem jafngilda næstum því virði alls hlutafjár í N1. 

Það sem af er ári hefur nokkuð borið á erlendum fjárfestingum í skráðum hlutafélögum á Íslandi. Blaðamaður mbl.is rýndi í gögn Kauphallarinnar frá 2. nóvember 2017 um 20 stærstu hluthafa skráðra hlutafélaga í Kauphöllinni til þess að draga upp mynd af umsvifum erlendra aðila. 

Umsvifamestur er vogunarsjóðurinn Eaton Vance Management en fjárfestingar hans hér á landi fara gegnum sex sjóði. Eaton Vance var meðal þeirra félaga sem stjórnvöld gerðu tilboð um kaup á á aflandskrónueignum í vor. 

Sjóðurinn á hlutabréf í að minnsta kosti níu félögum; Eimskip, Tryggingamiðstöðinni, Reitum, Högum, Sjóvá, Regin, VÍS, Eik og Símanum. Samtals nema eignir sjóðsins í þessum félögum rúmum 16 milljörðum íslenskra króna. Eaton Vance á hlutfallslega mest í VÍS og nemur hluturinn 6,64%. 

Næst kemur The Yucaipa Companies sem á 13,7 milljarða hlut í Eimskip, rúm 25%. Hluturinn féll í hendur bandaríska fjárfestingafélagsins sem var meðal lánardrottna Eimskips í endurskipulagningu félagsins árið 2009. Þá nam hluturinn 32% en árið 2012 seldi Yucaipa 7% til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. 

Wellington Management hefur meira en 106 billjónir íslenskra króna í stýringu. Eignir félagsins hér á landi nema rúmum 4,1 milljarði króna sem dreifist á fimm félög; Eimskip, N1, Nýherja, Haga og Símann. Það dró nýlega úr hlut sínum í N1, úr 5,3% í 4,39%.

Fyrir rúmu ári undirritaði Kvika banki sam­starfs­samn­ing við Well­ingt­on Mana­gement um sölu og dreif­ingu á hluta­bréfa­sjóðnum Global Quality Growth.

Opinskáir með umsvifin

Forsvarsmenn breska vogunarsjóðsins Lansdowne Partnes hafa talað opinskátt um að fjárfesta á Íslandi. Í sumar var haft eftir einum sjóðstjóra félagsins að á Íslandi væru tækifæri sem erfitt væri að finna annars staðar í heiminum. 

Lansdowne hefur nú keypt í þremur félögum; N1, Fjarskiptum og Símanum. Sjóðurinn á hlutfallslega mest í Fjarskiptum, rúm 7,5%. Hlutur þess í N1 nemur tæpum 5,8% en í Símanum á það tæp 1,9%. Þegar allt er tekið saman á Lansdowne rúma 3,6 milljarða af skráðum íslenskum hlutabréfum. 

Fimmta og síðasta erlenda fyrirtækið sem kemur fyrir á lista Kauphallarinnar er Miton Group sem er breskt fjárfestingarfélag. Fjárfesting þess nemur tæpum 3,6 milljörðum króna og á það hlut í Tryggingamiðstöðinni, Sjóvá, VÍS og Símanum. 

Erlendu fjárfestingarfyrirtækin fimm eiga samtals 10,3% í ofangreindum hlutafélögum en hlutfallið lækkar niður í 5,2% þegar hin hlutafélögin eru tekin með í reikninginn, þ.e. Icelandair, Marel, Skeljungur og HB Grandi, en viðskiptum með hlutabréf í Össuri verður hætt næstu mánaðamót. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK