„Fólkið er veikasti hlekkurinn“

Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, og Ragnar Sigurðsson stofnandi.
Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, og Ragnar Sigurðsson stofnandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ein­blín­um á mann­lega þátt­inn í gagna­ör­yggi. Það er jafnsatt í dag og þegar ég byrjaði fyr­ir 14 árum síðan að fólkið er veik­ast hlekk­ur­inn,“ seg­ir Ragn­ar Sig­urðsson, stofn­andi AwareGO, sem fram­leiðir og selur mynd­skeið fyr­ir þjálf­un í tölvu­ör­yggi. 

Fyr­ir­tækið var stofnað árið 2007 en Ragn­ar hafði um nokk­urt skeið unnið við kennslu í upp­lýs­inga­tækni. „Ég hélt fyr­ir­lestra um tölvu­ör­yggi í fyr­ir­tækjum og notaðist við Power Po­int-glær­ur. Þegar ég sá hvernig lífs­vilj­inn sogaðist úr fólki fór ég að hugsa hvort að ekki væri til betri leið.“

Fyrsta mynd­skeiðið var tek­ið upp sama ár, 2007, og fyrstu 12 þætt­irn­ir, hver 6-8 mín­út­ur að lengd, urðu til skömmu síðar eða árið 2008. Þeir hittu ekki í mark, meðal ann­ars vegna lengd­ar­inn­ar að sögn Ragn­ars. Þá trufluðu menn­ing­ar­leg­ir þætt­ir söl­una í Banda­ríkj­un­um.

„Í Banda­ríkj­un­um náðum við ekki einni ein­ustu sölu því lög­fræðideild­irn­ar stöðvuðu þetta á þeim grund­velli að all­ir leik­ar­arn­ir væru hvít­ir. Þetta eru hlut­ir sem maður hugs­ar ekki um á Íslandi,“ seg­ir Ragn­ar. „Síðan lent­um við í því að yf­ir­maður kom í veg fyr­ir sölu því einn leik­ar­inn upp­fyllti ekki snyrti­regl­ur fyr­ir­tæk­is­ins. Það mátti vera vel rakaður eða með skegg en ekki órakaður og við þurft­um því að taka aft­ur upp þetta eina mynd­band.“

Mikil fræði á bak við framsetninguna

Eft­ir að hafa þróað efnið og klippt eldra efnið tölu­vert niður var ákveðið að ráðast í nýja fram­leiðslu árið 2014. Búið er að fram­leiða 24 mynd­bönd og fyr­ir­tækj­um seld 12 mánaða áskrift. 

„Það er búið að pakka öllu þessu efni í eina mín­útu þannig að skila­boðin sitji í áhorfandanum og það eru heil­mik­il fræði á bak við það. Þetta er eins og með bíl­belta­aug­lýs­ing­ar. Fólk veit að þá að á að setja á sig belti en samt þarf að aug­lýsa það á áhrifa­mik­inn hátt til þess að fleiri taki upp á því.“

Í dag er AwareGO orðið alþjóðlegt fyr­ir­tæki á sviði ör­yggis­vit­und­ar með viðskipta­vini út um all­an heim. Á Íslandi hafa yfir 21.000 manns notað efnið úr smiðju fyr­ir­tæk­is­ins og yfir 850.000 manns á heimsvísu. Meðal viðskipta­vina eru Barclays-banki, Cred­it Suis­se  og rík­is­fyr­ir­tæki á veg­um Or­egon-sýslu í Banda­ríkj­un­um auk helstu fyr­ir­tækja og stofn­ana á Íslandi.

Tökur á myndskeiði AwareGO.
Tökur á myndskeiði AwareGO. Ljósmynd/AwareGO

Gríðarmikil tækifæri fram undan 

Um mitt ár 2018 verður inn­leidd Evr­ópu­lög­gjöf sem nefn­ist „Gener­al Data Protecti­on Regulati­on“. Lög­gjöf­in hef­ur í för með sér að fyr­ir­tæki í Evrópu þurfa  að ráða sam­tals 27 þúsund per­sónu­vernd­ar­full­trú­a en fari þau ekki eft­ir sett­um regl­um geta þau verið sektuð um allt að 4% af veltu. Þetta skap­ar gríðar­mikil tæki­færi fyr­ir AwareGO.

„Ég held að við séum vel í stakk bún­ir til að grípa tæki­færið. Per­sónu­vernd­ar­full­trú­arn­ir sjá um að þjálfa alla starfs­menn sem hafa aðgang að þess­um per­sónu­upp­lýs­ing­um og við erum með vör­una sem þeir þurfa að nota. Ég hef orðað það þannig að við séum með frá­bært leik­rit og nú þurf­um við bara að fara að sýna það. 

AwareGO und­ir­ritaði á dög­un­um samn­ing­in við Reykja­vík­ur­borg um keyrslu á efni til þúsunda starfs­manna borg­ar­inn­ar en borg­in, eins og aðrar stofn­an­ir og fyr­ir­tæki, hef­ur hafið und­ir­bún­ing til að upp­fylla skil­yrði um gagna­ör­yggi. Ragnar segir að öryggisvitund starfsfólks sé eitt af því mikilvægasta í reglugerðinni því það sé orðið almennt viðurkennt að vírusvarnir og eldveggir haldi ekki lengur ein og sér. Mannlega þáttinn verði að styrkja.

Fyrstir til að selja beint á netinu

Auk þess er AwareGO að þróa nýj­an hug­búnað, sem ger­ir fyr­ir­tæk­inu kleift að selja beint til lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja um all­an heim á net­inu með einföldum hætti.

„Við verðum fyrsta fyr­ir­tækið í þessum geira til að þjón­usta beint á net­inu,“ seg­ir Ragn­ar. „Aðal­málið í þessu er að við erum með skalan­legt alþjóðlegt efni á mörg­um tungu­mál­um sem við get­um byrjað að markaðssetja og gríðarlega mörg fyrirtæki vantar vöruna á næstu misserum.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir