99 daga að uppgötva öryggisbrot

Fyrirtæki eru að jafnaði 99 daga að uppgötva innbrot eða öryggisbrot í tölvukerfi sín og má rekja ástæðuna til notkunar á mörgum öryggiskerfum sem ekki eru samþætt. Þetta segir Guðjón Ingi Ágústsson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja.

„Ein aðalástæðan fyrir því að það tekur langan tíma að uppgötva innbrot eða öryggisbrot er að fyrirtæki hafa fjárfest í margs konar öryggislausnum og vörnum, sem er jákvætt út af fyrir sig, en því miður eru oft engin samskipti á milli þessara lausna og eru þær því eins og einangraðar eyjur,“ segir Guðjón.

Samþætting slíkra lausna er lykilatriði, auk greiningar á þeim gögnum sem er verið að safna í „loggum“ í helstu kerfum umhverfisins, að sögn Guðjóns. Hann segir að þrátt fyrir að tíminn sé langur séu öryggismál að þokast í rétta átt. 

„Síðustu ár höfum við séð jákvæðar breytingar. Árið 2011 tók að jafnaði 416 daga að uppgötva öryggisbrot. Á sama tíma hafa öryggisbrot sem eiga í raun að uppgötvast frekar fljótt (Ransomware) aukist mjög mikið síðustu ár.“

Guðjón segir að bæði fyrirtæki og stofnanir séu að þroskast í öryggismálum almennt enda mikil vitundarvakning búin að eiga sér stað síðustu ár í þessum efnum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir