Býst við auknu streymi fjármagns erlendis frá

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segist eiga von á auknu innflæði erlends fjármagns á íslenska hlutabréfamarkaðinn. Hversu mikið það verði velti hins vegar á hversu vel gangi að byggja upp markaðinn.

„Þetta er ákveðin hringrás. Aukinn áhugi erlendra fjárfesta hjálpar okkur að gera íslenska hlutabréfamarkaðinn að áhugaverðari valkosti fyrir fyrirtæki,“ segir Páll. „Að sama skapi mun fjölgun fyrirtækja laða að erlenda fjárfesta. Um leið og boltinn fer að rúlla styður þetta hvort við annað.“  

Er­lend fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki eiga að minnsta kosti 41 millj­arð króna í Kaup­höll Íslands en fyr­ir tveim­ur árum stóð upp­hæðin í rúm­um 15 millj­örðum. Í þeim hlutafélögum sem erlendu fjárfestingarfyrirtækin eiga í nemur hlutur þeirra samtals 10,3% en hlut­fallið lækk­ar niður í 5,2% þegar önnur hluta­fé­lög­ eru tek­in með í reikn­ing­inn.

Páll segir að séu fjárhæðirnar settar í samhengi við stærð markaðarins telji aukningin ekki margar prósentur. 

„[...] en á mörkuðum í nágrannalöndunum höfum við séð gríðarlega aukningu undanfarinn áratug þar sem meirihluti fjármagnsins kemur erlendis frá. Við viljum sjá íslenska hlutabréfamarkaðinn opinn og á pari við nágrannamarkaði.“

Í forgangi er að fá bankana á markað að sögn Páls. Hann segir að einnig þurfi fleiri fyrirtæki með íslensk sérkenni, til að mynda fyrirtæki úr orkugeiranum, sjávarútvegi og ferðaþjónustu en þannig verði markaðurinn líflegri og eflist í augum erlendra sem innlendra fjárfesta.

Þá nefnir Páll að líklega megi rekja stóran hluta af aukningu erlendrar fjárfestingar til afléttingar gjaldeyrishaftanna í vor. 

„Ég myndi halda að þetta hafi ýtt undir fjárfestingu erlendra aðila meira en annars hefði verið. Aflétting hafta var yfirlýsing um að hér sé komið eðlilegt ástand.“ 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir