Eigið fé Títan sjö milljarðar

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. mbl.is/RAX

Hagnaður Títans, fjárfestingafélags Skúla Mogensen, jókst um þrjá milljarða króna á milli ára og var 4,4 milljarðar árið 2016. Hagnaðinn má að mestu rekja til hlutdeildar í afkomu flugfélagsins Wow air, sem Títan á að fullu, en flugfélagið hagnaðist um 4,3 milljarða í fyrra.

Ábyrgðaþóknanir og aðrar fjármunatekjur drógust saman um 8% á milli ára og námu 394 milljónum króna. Auk þess fékk Títan 60 milljón króna arðgreiðslu frá Cargo Express, sem það á 60% hlut í.

Eigið fé Títan jókst um 4,4 milljarða á milli ára og var 6,9 milljarðar króna við árslok. Helsta eign fjárfestingafélagsins er lággjaldaflugfélagið Wow air og jókst eigið fé Títans sem nemur hagnaði flugfélagsins í fyrra. Eiginfjárhlutfallið var 90% við árslok.

Virði Wow air í bókum Títans er jafnt og eigið fé þess eða 5,9 milljarðar króna. Títan skuldaði 784 milljónir í árslok og þar af Skúla 117 milljónir.

Aðrar eignir Títans eru meðal annars 9,9% hlutur í eldsneytisfyrirtækinu Carbon Recycling International sem bókfærður er á 321 milljón og 12% hlutur í Caoz sem bókfærður er á 744 þúsund krónur.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir