Eiga svipað og 160 milljónir manna

Fátækt fólk í Flórída á lítið sameiginlegt með auðmönnum sem …
Fátækt fólk í Flórída á lítið sameiginlegt með auðmönnum sem sækja ríkið reglulega heim. AFP

Þrír auðugustu menn Bandaríkjanna, Bill Gates, Jeff Bezos og Warren Buffett, eiga álíka miklar eignir og helmingur bandarísku þjóðarinnar samanlagt, eða 160 milljónir Bandaríkjamanna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, Billionaire Bonanza, sem Guardian fjallar um í dag. Þar kemur fram að auður Gates, Bezos og Buffett nemur samanlagt 248,5 milljörðum Bandaríkjadala. Stofnunin, Institute for Policy Studies, segir vaxandi bil á milli ríkra og fátækra hafa skapað spennu á milli ólíkra hópa og í raun ríki siðferðiskreppa í Bandaríkjunum.

Bill Gates á ekki í vandræðum með að greiða reikninga …
Bill Gates á ekki í vandræðum með að greiða reikninga sína. AFP

Tillögur Trump skila þeim ríkustu mest

Í skýrslunni segir að tillögur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í skattamálum muni gera ástandið enn verra varðandi misskiptingu auðsins þar sem 80% af skatta-ávinningnum muni enda hjá þeim allra ríkustu sem eru 1% af bandarískum heimilum. 

„Misskipting auðs er að aukast,“ segir hagfræðingurinn og annar af höfundum skýrslunnar, Chuck Collins. Hann segir tímabært að grípa til aðgerða og draga úr ójöfnuði og það verði ekki gert með skattalækkunum á þá allra ríkustu.

Í skýrslunni kemur fram að auður þeirra 400 ríkustu í Bandaríkjunum, samkvæmt Forbes, nemur 2,68 milljónum milljóna Bandaríkjadala (trillion á ensku). Guardian setur þetta í samhengi við verga landsframleiðslu Breta sem er minni en þetta.

Auður 400 ríkustu er nú orðinn meiri en samanlagðar eignir þeirra 64% sem minnst eiga í Bandaríkjunum. Það svarar til 80 milljóna heimila eða 204 milljóna manna. Það er meiri fjöldi en samanlagður íbúafjöldi Mexíkó og Kanada.

Jeff Bezos, forstjóri Amazon.
Jeff Bezos, forstjóri Amazon. AFP

Tveir svartir og fimm af rómönskum uppruna

Ef horft er á listann yfir 400 ríkustu Bandaríkjamennina þá eru aðeins tveir þeirra svartir. Oprah Winfrey, sem er númer 264 á listanum með eignir sem metnar eru á þrjá milljarða Bandaríkjadala, og fjárfestirinn Robert Smith sem er í sæti 226 með 3,3 milljarða Bandaríkjadala. 

Fimm einstaklingar á lista Forbes eru af rómönskum uppruna. Þeirra á meðal er fasteignafjárfestirinn Jorge Pérez, eigandi körfuboltaliðs LA, Arturo Moreno, og þrír úr fjölskyldu kólumbíska bjórframleiðandans Julio Mario Santo Domingo, sem er stór hluthafi í SABMiller.

Donald Trump, forstjóri Microsoft, Satya Nadella og forstjóri Amazon, Jeff …
Donald Trump, forstjóri Microsoft, Satya Nadella og forstjóri Amazon, Jeff Bezos. AFP
Warren Buffett.
Warren Buffett. AFP



Af þeim 25 ríkustu eru allir hvítir. Sá ríkasti er stofnandi Microsoft, Bill Gates, með eignir sem metnar eru á 89 milljarða Bandaríkjadala. Bezos, eigandi Amazon, er með 81,5 milljarða dala og fjárfestirinn Warren Buffett með 78 milljarða dala. Í fjórða sæti er stofnandi Facebook,  Mark Zuckerberg, með 71 milljarð Bandaríkjadala. 

Síðan Forbes 400 kom út í síðasta mánuði hefur verð hlutabréfa Amazon hækkað um meira en 10% sem þýðir að eignir Bezos hafa aukist verulega og eru nú metnar á 95 milljarða Bandaríkjadala. Það þýðir að hann er kominn á topp listans yfir ríkustu Bandaríkjamennina.

Hér er hægt að lesa frétt Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK