Hagnaður Íslandsbanka dregst saman

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íslandsbanki hagnaðist um 2,1 milljarð á þriðja fjórðungi þessa árs samanborið við 2,5 milljarða króna hagnað á sama tímabili í fyrra. 

Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 8,1% á fjórðungnum en var 8,4% á sama tíma í fyrra. 

Hreinar vaxtatekjur voru 7,5 milljarðar króna og lækka úr 7,8 milljörðum króna á síðasta ári. Vaxtamunur var 2,8% og minnkar frá 3% á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Í tilkynningu um uppgjörið er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að það sé í samræmi við markmið bankans. Jákvæð virðisbreyting útlána hafi mikil áhrif á arðsemina og gæði lánasafnsins séu að aukast. 

„Nýlega var lánshæfismat Íslandsbanka hækkað af S&P Global Ratings sem ýtir undir þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað í íslensku efnahagslífi. Kjör bankans á erlendum fjármagnsmörkuðum hafa farið batnandi síðustu misseri og erum við nú mun samkeppnishæfari í kjörum við erlenda banka.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir