Selja hluti í Eistnaflugi

Ljósmynd/Gaui H

Þungarokkshátíðin Eistnaflug kom illa undan sumri en rétt rúmlega þúsund manns sóttu hátíðina, sem almennt dregur um 1.800 manns til Neskaupstaðar. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu hátíðarinnar en í gær voru hlutir í félaginu Millifótakonfekti ehf. auglýstir til sölu fyrir 200 þúsund krónur á prósentuna.

Fjárhagsleg endurskipulagning hátíðarinnar hefur gengið ágætlega að sögn Karls Óttars Péturssonar, framkvæmdastjóra hennar og hæstaréttarlögmanns. „Þegar við erum búnir að selja þetta vantar okkur ennþá þrjár milljónir til að geta lokað gatinu endanlega en síðan er Fjarðabyggð búin að samþykkja að styrkja okkur með ákveðnum skilyrðum og SÚN (Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað) hefur styrkt hátíðina og í raun gert henni kleift að vera til í gegnum árin.“

Miðað við auglýst söluverð hlutanna er félagið metið á 20 milljónir króna en að sögn Karls Óttars er það þó í raun fjárhagslega lítils virði eins og staðan er í dag þar sem lausafjárstreymið er ekkert. „Fólkið sem er að kaupa núna er fólk sem vill styðja hátíðina og hefur trú á henni. En ef við náum tvö þúsund áhorfendum á ári ætti hátíðin að geta haft fjórar til fimm milljónir í EBITDA og þá er bara spurning hvaða margfaldara þú notar, en á eðlilegu ári ætti hún að geta verið 20 milljóna króna virði.“

Krónan erfið

Aðspurður um ástæður lélegrar miðasölu í sumar bendir Karl Óttar á að margir Íslendingar hafi sótt tónleika erlendis í sumar. „Það fóru margir á Guns N' Roses og ýmis festivöl. Gengi evrunnar var hagstætt í byrjun sumars og það var ódýrt fyrir fólk að fara út en á sama tíma er dýrt að fara á Neskaupstað. Þá var gengið óhagstætt á þeim tíma sem ferðamenn kaupa miða, sem er almennt í desember og janúar, sem kom sér illa fyrir okkur.“

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir