90% vaxtabóta fara til efnameiri

4,6 milljarðar voru greiddir úr ríkissjóði í formi vaxtabóta í …
4,6 milljarðar voru greiddir úr ríkissjóði í formi vaxtabóta í fyrra og jafngildir það um fimmtungi alls opinbers húsnæðisstuðnings. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vaxtabætur nýtast síst þeim efnaminnstu á húsnæðismarkaðnum samkvæmt úttekt sem Íbúðalánasjóður hefur unnið. Þar kemur fram að 90% af vaxtabótum fari til efnameiri helmings þjóðarinnar.

„Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem fyrstu kaupendur verja að jafnaði meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en aðrir fasteignareigendur. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hjálpa fyrstu kaupendum, sem hafa átt undir högg að sækja vegna mikilla hækkana fasteignaverðs en samkvæmt úttektinni nýtast vaxtabætur þessum hóp ekki sem skyldi,“ segir í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

4,6 milljarðar voru greiddir úr ríkissjóði í formi vaxtabóta í fyrra og jafngildir það um fimmtungi alls opinbers húsnæðisstuðnings. Þegar vaxtabótakerfinu var komið á fót var yfirlýstur tilgangur þess að styðja tekjulægri hópa. Þ.e.a.s. vaxtabæturnar áttu að renna til þeirra sem greiða hlutfallslega mikið af tekjum sínum í vexti af íbúðalánum. Þetta hefur ekki gengið eftir á síðustu árum, en sem dæmi um þetta renna um 70% vaxtabóta nú til fólks eldra en 36 ára.

Þá kemur fram í úttektinni að ýmsir neikvæðir hvatar séu byggðir inn í vaxtabókakerfið sem þurfi að breyta. Til dæmis getur það í sumum tilfellum haft neikvæð nettóáhrif að greiða inn á húsnæðislán. Þó að lækkun höfuðstóls leiði vissulega til lægri vaxtagreiðslna dugir það ekki alltaf upp á móti skerðingum sem fólk verður um leið fyrir á fjárhæð vaxtabóta.

Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar á opnum fundi Íbúðalánasjóðs í dag milli klukkan 12:00 og 13:00 í húsnæði Íbúðalánasjóðs að Borgartúni 21. Fundurinn ber yfirskriftina Vaxta- og húsnæðisbætur: getum við gert betur? 

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, mun fjalla um vaxtabótakerfið og bera það saman við fyrirkomulagið á hinum Norðurlöndunum. Á fundinum verður farið yfir hvort vaxtabætur skili sér í bættu húsnæðisöryggi landsmanna eða hvort þörf sé á breytingum sem myndu tryggja að vaxtabætur renni til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda. Ólafur mun einnig fjalla um hvernig gera megi betur þegar kemur að öðrum húsnæðisstuðningi hins opinbera, meðal annars húsnæðisbótum. 


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK