Félagið skyldað að binda tugi milljóna

Jón Gunnar Benjamínsson, eigandi Iceland Unlimited.
Jón Gunnar Benjamínsson, eigandi Iceland Unlimited. Ljósmynd/Aðsend

Reglugerð sem skyldar ferðaskrifstofur til að leggja fram tryggingu sem getur numið 15% af heildarveltu ársins leggst þungt á smærri fyrirtæki. Eigandi ferðaskrifstofu segir reglugerðina mynda þröskuld fyrir innkomu nýrra fyrirtækja á markaðinn. 

„Það er ekki horft á hvert tilvik fyrir sig heldur er eitt látið yfir alla ganga,“ segir Jón Gunnar Benjamínsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Iceland Unlimited, sem selur pakkaferðir með gistingu, bílaleigubíl og afþreyingu. 

Um er að ræða reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa. Þar er kveðið á um að ferðaskrifstofur, sem selja alferðir, leggi fram tryggingu, sem nemur hæsta gildi eftirfarandi liða: 60% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð, 35% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða 15% af heildarveltu á ári. Trygging skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en einni milljón króna. 

Mér finnst líklegt að þetta hafi verið sérsniðið að innlendum ferðaskrifstofum sem selja utanlandsferðir. Hugmyndin er að peningur verði að vera til staðar til þess að geta komið fólki heim ef ferðaskrifstofan fer í þrot en það á ekki við okkur sem seljum pakkaferðir á Íslandi en ekki flugið.“

Jón Gunnar segir að fjárhæðin liggi bundin og dauð á bankareikningi sem beri nær enga vexti en til þess að útvega hana þurfti hann að fara fram ábyrgð frá viðskiptabanka sínum og á móti tók bankinn veð í fasteign Jóns. 

Milljónin vegur þungt

Lágmarksupphæðin er, eins og áður kom fram, ein milljón króna, en hún hleypur nú á tugum milljóna fyrir Iceland Unlimited. Jón Gunnar segir að þegar hann hafi farið af stað með fyrirtæki hafi upphæðin verið mikil hindrun. 

„Þegar ég var að nurla saman til að búa til vefsíðu var þetta verulegur þröskuldur og ég myndi halda að þetta fæli frumkvöðla frá því að komast inn í bransann. Þegar þú átt engan pening vegur milljón þungt.“

Þá nefnir Jón Gunnar að ofan á allt þetta bætist við 25 þúsund krónur sem greiddar séu árlega til endurskoðanda á Vestfjörðum, gjöldin sem viðskiptabankarnir innheimti fyrir ábyrgðina og pappírsvinna til að skaffa veð í fasteign. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir