Innflutningstakmarkanir dæmdar ólöglegar

AFP

EFTA-dómstóllinn dæmdi í morgun að innflutningstakmarkanir á ferskum matvælum séu ólöglegar. Var málið höfðað af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gegn íslenska ríkinu.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð Evrópusambandsins um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgangi hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar, segir í fréttatilkynningu frá SVÞ.

„SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins.

Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram um að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ, að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins,“ segir í tilkynningu frá SVÞ.

EFTA-dómstóllinn kvað fyrr í dag upp dóm sinn þar sem staðfest er ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti og er niðurstaðan því í fullu samræmi við upphaflega kvörtun SVÞ. SVÞ benda á að dómurinn er til samræmis við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá því í nóvember 2016 þar sem eitt aðildarfélaga samtakanna lét reyna á umræddar takmarkanir. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar og má vænta dóms vorið 2018, segir enn fremur í tilkynningu.

SVÞ gagnrýna tregðu stjórnvalda til að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu. „Skora samtökin á stjórnvöld og nýtt þing að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK