Milljarða rekstrartap Bauhaus

Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

Samanlagt rekstrartap byggingarvöruverslunarinnar Bauhaus fyrir fjármagnsliði á síðustu fimm árum, eða síðan að verslunin hóf starfsemi hér á landi, nemur um 2,2 milljörðum króna, að því er lesa má úr ársreikningum félagsins. Verslunin hefur aldrei skilað hagnaði.

Þannig nam rekstrartap fyrir fjármagnsliði tæpum 236 milljónum króna á síðasta ári og endanlegt tap var 62,5 miljónir króna. Rekstrartap árið 2015 nam rúmum 305 milljónum króna. Árið 2014 nam tap af rekstri rúmri 521 milljón króna og árið áður, eða 2013, var tapið 622 milljónir. Árið 2012, sem var fyrsta rekstrarár verslunarinnar, var rekstrartap verslunarinnar rúmar 500 milljónir króna.

Rekstrartekjur félagsins síðustu fjögur ár hafa farið stigvaxandi. Árið 2013 voru tekjurnar 1.948 milljónir, árið 2014 námu þær rúmum 2 milljörðum og árið 2015 voru tekjurnar komnar upp í rúma 2,2 milljarða. Á síðasta ári námu tekjur verslunarinnar 2,6 milljörðum króna.

Fasteignafélagið hagnaðist

Fasteignir Bauhaus eru reknar í sérstöku félagi og samkvæmt síðasta ársreikningi, fyrir árið 2016, hagnaðist félagið Lamhagavegur fasteignafélag ehf. um 673 milljónir króna. Á því ári nam jákvæður gengismunur 661 milljón króna. Árið 2015 var hagnaður félagsins 360 milljónir króna. Verslunarhúsnæðið sjálft er metið á tæpa fimm milljarða króna í reikningnum.

Samkvæmt upplýsingum í vefútgáfu Forbes-tímaritsins bandaríska er Bauhaus-fyrirtækið alþjóðlega í eigu stofnandans, Heinz-Georg Baus, og fjölskyldu hans. Samkvæmt sömu heimildum rekur Bauhaus 260 verslanir í 19 Evrópulöndum, með 23.000 starfsmönnum. Forbes áætlar að tekjur samstæðunnar nemi um sex milljörðum bandaríkjadala á ári, jafnvirði ríflega 600 milljarða íslenskra króna. tobj@mbl.is

Verslun Bauhaus við Vesturlandsveg.
Verslun Bauhaus við Vesturlandsveg.
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir