Útilokar ekki veitingu bílalána

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS. mbl.is/RAX

„Sögulega hafa tryggingafélög lánað til bifreiðakaupa. Mér þykir ekki loku fyrir það skotið að það muni gerast aftur. Hvort það passi inn í okkar vegferð fram undan er of fljótt að segja til um.“

Þetta segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, spurður í ViðskiptaMogganum í dag hvort hann telji að aukinn samruni verði með tryggingarekstri og bönkum þegar fram í sækir.

„Tryggingafélög eru jafnframt í alls kyns lánastarfsemi, til dæmis í gegnum fjárfestingasjóði. Mikilvægt er að þekking til slíkra lánveitinga sé fyrir hendi. Verkefnið fram undan er að átta sig á með hvaða hætti við viljum haga því,“ segir hann.

Að hans sögn hefur samstarf tryggingafélaga og banka gengið farsællega erlendis en á Íslandi hafi það ekki reynst vel. „Ef það er gert á réttum forsendum getur samstarf verið arðbært fyrir alla aðila.“

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir