Spá vaxandi verðbólgu á næstu misserum

Framkvæmdir í miðborginni
Framkvæmdir í miðborginni mbl.is/Ómar Óskarsson

Hagfræðideild Landsbankans spáir að verðbólga fari vaxandi á næstu misserum og að hagvöxtur verði 4% að meðaltali næstu þrjú ár sem er töluvert meiri vöxtur en Seðlabankinn og Hagstofan spá. 

Þetta kom fram á morg­un­fundi Lands­bank­ans í dag þar sem þjóðhagspá hag­fræðideild­ar­inn­ar var kynnt. Í spánni er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,5% á þessu ári, studdur kröftugum vexti einkaneyslu, útflutnings og fjárfestingar. 

Samkvæmt spánni verður árlegur hagvöxtur á tímabilinu um 4% að meðaltali, sem er mun kröftugri vöxtur en reiknað er með í flestum þróuðum ríkjum á komandi árum. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 3% meðalhagvexti á tímabilinu en spá Hagstofunnar 3,3% vexti. 

Helsta óvissan snýr að þróun fasteignaverðs og gengi krónunnar, og hvernig þessir þættir spila inn í verðbólguhorfur. Þá er sögð hætta á ofþenslu í hagkerfinu þrátt fyrir að hægi á vexti næstu ár. 

Tveir gagnstæðir kraftar

Í verðbólguspánni kemur fram að tveir gagnstæðir kraftar takist á. Annars vegar gengi krónunnar og hins vegar húsnæðiskostnaður. Afar ólíklegt þykir að svo miklar verðhækkanir á húsnæði og svo mikil verðhjöðnun á innfluttum vörum haldist í hendur til lengri tíma, og má því búast við að þróun verðbólgu ákvarðist af því hvor liðurinn gefi fyrr og hraðar eftir. 

Hagfræðideildin gerir ráð fyrir að neikvætt framlag innfluttra vara til neysluverðsvísitölunnar gefi nokkuð hratt eftir og hverfi strax á næsta ári. Einnig er reiknað með því að næstu ár muni aðrir innlendir liðir hafa áhrif til hækkunar. Hagfræðideild spáir því að verðbólga hækki nokkuð og nái hámarki í 3,1% á fyrsta ársfjórðungi 2020 en leiti aftur í átt að verðbólgumarkmiðinu í lok spátímans.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir