Nova og greiðsluappið Aur hyggjast efna til samkeppni við viðskiptabankana og bjóða almenningi aukna fjármálaþjónustu í gegnum Aur appið.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Nova stóð fyrir í dag. Notendur Aur-appsins geta frá og með deginum í dag sótt um fyrirframgreitt greiðslukort og allt að milljóna króna lán í farsímanum.
Aur, sem er í meirihlutaeigu fjarskiptafyrirtækisins Nova er þar með komið í beina samkeppni við bankana og önnur lánafyrirtæki. Forsvarsmenn Nova segja stutt í að fólk muni geta valið um að eiga í viðskiptum við banka eða nýta sér alfarið þjónustu minni fjártæknifyrirtækja eins og Aurs.
Aur lán geta eins og áður sagði numið allt að milljón króna. Sótt er um lán í Aur og það er borgað samstundis út til notenda sem standast sjálfvirkt lánshæfismat og lánareglur Aur. Lánin bera fasta og óverðtryggða vexti í allt að 24 mánuði og taka vextir og lántökugjöld mið af kjörum á markaði hverju sinni. Greitt er af lánum í gegnum Aur-appið sem er liður í því að halda kostnaði lántaka í lágmarki, að er kom fram í kynningunni.
Aur-kortið er fyrirframgreitt og snertilaust MasterCard greiðslukort sem ber engin færslugjöld, ekkert stofngjald og ekkert árgjald. Sótt er um kortið í Aur og fyllt á það í appinu. Með kortinu er hægt að greiða fyrir vörur á netinu, taka út reiðufé í hraðbönkum á Íslandi og erlendis.
Með nýrri evrópskri reglugerð eru bankar skyldaðir til að hleypa öðrum þjónustuaðilum inn í viðskiptakerfin sín.