Bankar ekki ómissandi en þjónustan er það

Liv Bergþórsdóttir er forstjóri Nova sem fagnar 10 ára afmæli.
Liv Bergþórsdóttir er forstjóri Nova sem fagnar 10 ára afmæli. Mynd/ Magasínið

Nova fagnar í dag 10 ára afmæli og kynnti Nova af því tilefni nýjar áherslur í starfi fyrirtækisins. Þau vilja vera raunverulegur valkostur við gömlu bankana til framtíðar segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.

Í Magasíninu á K100 sagði hún frá nýjungum fyrirtækisins, áherslum næstu árin og því hvernig stafræn tækni svarar breyttum kröfum nýrra kynslóða. Einnig lýsti hún því hvernig framtíðarfjármálaþjónusta mun keyra á lítilli yfirbyggingu, en sem dæmi starfa aðeins tveir starfsmenn hjá Aur. 

Tveir starfsmenn reka nýju bankaþjónustuna

Nýjar kynslóðir munu stunda bankaviðskipti á gerólíkan hátt en foreldrar þeirra og með nýrri evrópskri reglugerð um greiðsluþjónustu, sem tekur gildi á næsta ári, eru bankar skyldaðir til að hleypa öðrum þjónustuaðilum inn í viðskiptakerfi sín. 

„Við stofnuðum Aur haustið 2015 og nú þegar nota rúmlega 35 þúsund manns appið reglulega til að borga, rukka eða skipta kostnaði,“ segir Liv Bergþórsdóttir. Hún segir framtíðarsýn Aurs að geta boðið notendum sínum alla helstu fjármálaþjónustu en í dag geta notendur Aur-appsins sótt um fyrirframgreitt greiðslukort og lán allt að 1.000.000 kr. í farsímanum. 

„Þetta er skref í áttina að því að geta kvatt bankann þinn. Bankaþjónusta er ómissandi en bankar eru það ekki.“ Það vekur athygli þáttastjórnenda að aðeins tveir starfsmenn starfa hjá Aur-appinu. Liv segir þau ekki endilega þurfa að ráða inn fleiri starfsmenn þrátt fyrir nýja þjónustu.

„Þetta er app og á því getum við keppt. Þetta eru í dag orðin fyrirtæki með litla yfirbyggingu og eru að nýta sér þessar tækniframfarir sem eru orðnar og þessa snjallsímavæðingu. Markmiðið er að gera þetta eins sjálfvirkt og hægt er. Og á því byggir framtíðin og á því byggir ánægja viðskiptavinarins. Við sjáum það til dæmis í Ánægjuvoginni núna síðast. Áhugavert hvaða fyrirtæki eru að koma sterk inn í ánægju viðskiptavinanna. Það er þau þar sem sjálfsafgreiðsla er hvað mest.“

Netvæðingin rétt að byrja

Liv segir komið að tímamótum í tekjuöflun fyrirtækisins og nú muni þau hætta að rukka fyrir símtöl og SMS. Hún segir það lengi hafa legið í loftinu og árið 2007 hafi þau komið inn á markað og kynnt ókeypis símtöl á milli allra viðskiptavina Nova. Hún segir mjög marga hafa verið vantrúa á að það myndi ganga rekstrarlega. Nú ætla þau að taka þetta alla leið. 

„Við erum netfyrirtæki, við erum ekki lengur símafyrirtæki í þeim skilningi og viðskiptavinir okkar eru að nota netið sífellt meira,“ segir Liv.
Netnotkun á fjarskiptakerfi Nova var 60% af allri netumferð á Íslandi á síðasta ári. „Viðskiptavinir okkar voru að nota allt að þremur gígabætum á mánuði til samanburðar við eitt gígabæt samkeppnisaðilans. Og bara á þessum fyrstu sex mánuðum ársins þá er þetta komið yfir fjögur gígabæt og þetta er sífellt að aukast. Við sjáum að í Finnlandi þá er meðaltal viðskiptavinar 18 gígabæt á mánuði. Þannig að við segjum bara að þetta er netvæðing sem er rétt að byrja.“

Liv segir þau fagna afmælinu með fullt af góðum tilboðum og bætir við að það verði alla vega diskókúla, enda hefur diskókúla og slagorðið „Stærsti skemmtistaður í heimi“ verið áberandi í markaðssetningu Nova undanfarin ár. 

Viðtalið í heild má heyra og sjá í spilaranum. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir