3 milljarða gjá vegna forsendubresta

mbl.is/Kristinn

Lífeyrissjóður bankamanna hefur orðið af að minnsta kosti 3 milljörðum vegna forsendubresta við uppgjör ábyrgða á lífeyrisskuldbindingum í tengslum við einkavæðingu bankanna. 

Þetta kemur fram í frétt á vef sjóðsins. Málið snýst um greiðslur til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans (nú Lífeyrissjóðs bankamanna) vegna samkomulags frá árinu 1997 um uppgjör ábyrgðar þeirra á skuldbindingum lífeyrissjóðsins, sem gert var vegna fyrirhugaðrar hlutafjárvæðingar ríkisbankanna.

Niðurstaða matsgerðar er sú að sá mismunur á uppgjöri á áföllnum skuldbindingum og vanáætluðu heildariðgjaldi til að mæta framtíðarskuldbindingum nemi rúmlega 3 milljörðum króna miðað við verðlagsbreytingar en um 5,5 milljörðum miðað við breytingar kaupgjalds til sama tíma.

Sama gildi um bankastjóra og almenna starfsmenn

Um er að ræða lokaðan sjóð þannig að ekki er hægt að brúa bilið með iðgjöldum nýrra sjóðsfélaga. Stjórn Lífeyrissjóðsins hefur því sent forsvarsmönnum viðkomandi aðildarfélaga sjóðsins ásamt fjármálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir svari um hvort vilji sé til samkomulags án þess að til málaferla komi.

Í bréfinu er bent á að Landsbankinn sé nánast að öllu leyti í ríkiseigu og að Seðlabankinn sé ríkisstofnun. Þá er vakin athygli á því að fyrir liggi fordæmi fyrir því að ríkissjóður beri ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum fyrrverandi bankastjóra Landsbankans. 

„[...] og myndi skjóta skökku við ef annað ætti að gilda gagnvart almennum starfsmönnum.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir