Ákærðir fyrir fjármögnun hryðjuverka

AFP

Svissnesk-franska sementsfyrirtækið Lafarge Holcim hefði átt að hætta starfsemi í Sýrlandi fyrr en gert var, segir stjórnarformaður félagsins í viðtali sem birt var í gær. Þrír framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa verið ákærðir fyrir að hafa fjármagnað hryðjuverkastarfsemi með óbeinum hætti.

Beat Hess, stjórnarformaður Lagarge Holcim, segir í viðtali við Le Figaro í gær að fyrirtækið væri að fara í gegnum erfiðleika sem hefðu slæm áhrif á orðspor þess.

Lafarge er sakað um að hafa greitt Ríki íslams og fleirum vígasamtökum í gegnum millilið til þess að tryggja að verksmiðja fyrirtækisins í Jalabiya í Norður-Sýrlandi gæti starfað áfram.

Jafnframt er fyrirtækið sakað um að hafa notað falsaða ráðgjafarsamninga til þess að kaupa eldsneyti af Ríki íslams sem náði yfirráðum yfir helstu og mikilvægustu olíubirgðastöðvum Sýrlands í júní 2013.

„Óásættanleg mistök voru gerð sem fyrirtækið sér eftir og fordæmir,“ segir Hess. Hann segist telja að Lafarge hafi farið allt of seint frá Sýrlandi. 

Frederic Jolibois, sem tók við stjórn verksmiðjunnar í Sýrlandi árið 2014 hefur verið ákærður fyrir að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og brotið gegn viðskiptabanni Evrópusambandsins á sýrlenskri olíu.

Bruno Pescheux, sem stýrði verksmiðjunni í Jolibois frá 2008 til 2014, og öryggisstjóri Lafarge, Jean-Claude Veillard, eru ákærðir fyrir að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og stofnað lífi annarra í hættu.

Hess varð stjórnarformaður Lafarge í maí 2016 og segist hann hafa fulla trú á franska dómskerfinu. Ef fyrirtækið geti eitthvað gert til að aðstoða þá verði það gert.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir